Göngu- hjólaleiðir

Afþreyingarmöguleikarnir sem bjóðast í Mosfellsbæ eru afar fjölskylduvænir.  Bærinn hefur uppá svo margt að bjóða og óþarfi að fara langt til að finna og upplifa Ísland í hnotskurn.
Möguleikar til útivistar og afþreyingar í  Mosfellsbæ eru margvíslegir, þar sem eitthvað er við allra hæfi.

Nálægðin við ósnortna náttúru og fallega staði er sérstaða bæjarins og er það m.a. ástæða þess að margir hafa valið að búa þar,  fjarri skarkala borgarlífsins. 

Auknum áhuga á að stunda útivist og hverskyns íþróttir hefur verið svarað með markvissri uppbyggingu útivistarsvæða fyrir íbúa bæjarins, gesti þeirra og ferðamenn.

Stikun gönguleiða
Skátafélagið Mosverjar hefur í samvinnu við Mosfellsbæ unnið að stikun gönguleiða um útivistarsvæði í Mosfellsbæ. Fyrsta áfanga verksins er lokið en ætlunin er að stika alls um 65 km en auk þess að setja upp vegpresta við vegamót og upplýsingaskilti við gönguleiðirnar. 

Göngukort sem hefur verið prentað verður fyrirliggjandi ókeypis á íþróttamiðstöðvunum að Varmá og Lágafelli og einnig í bókasafni Mosfellsbæjar og má einnig nálgast rafrænt á eftirfarandi slóð: Kort af stikuðum gönguleiðum

Markmiðið með lagningu stikaðra gönguleiða er að auðvelda almenningi aðgang að ósnortinni náttúru útivistarsvæðis Mosfellsbæjar. Þar eru margar náttúruperlur og sögulegar minjar sem sagt verður frá á sérstökum fræðsluskiltum sem verða sett upp í tengslum við verkefnið.
 
Göngufólk er hvatt til að nýta sér stikuðu gönguleiðirnar og göngukortið jafnt sumar sem vetur, ganga vel um og njóta útivistarsvæðisins.

Dagsferð fyrir fjölskylduna
Skemmtileg dagsferð fyrir fjölskylduna gæti til að mynda hafist með góðri gönguferð hér í náttúrunni umhverfis bæinn. Það er mjög gaman að ganga upp með Varmánni þar sem stígar þræða sig í gegn um skóga og yfir brýr. Þeir sem vilja erfiðari gönguleið geta sett stefnuna á eitt af fellunum hér í kring, eða jafnvel gengið á Esjuna. Því næst mætti næra sig í fína bakaríinu okkar, Mosfellsbakarí, sem hefur margt gott á boðstólnum. Síðan má heimsækja Gljúfrastein í Mosfellsdal, heimili Halldórs Laxness, sem nú er orðið safn. Að því loknu væri gaman að fara í útreiðatúr frá Laxnesi, hestaleigunni í Mosfellsdal, og tilvalið væri að enda daginn í Lágafellslaug, sem er ný og glæsileg sundlaug með frábærri aðstöðu fyrir fjölskyldufólk, skemmtilegum rennibrautum, vaðlaugum og þar fram eftir götunum. 

Fjöldi gönguleiða
Í Mosfellsbæ eru fjölmargar gönguleiðir af misjöfnum erfiðleikastigum Hægt er að finna greinargott kort af gönguleiðum á vef bæjarins. Fallegar gönguleiðir eru meðfram sjónum og ánum, bæði Varmá og upp með Köldukvísl. Mjög skemmtilegt er fyrir alla fjölskylduna að ganga á fjöllin og fellin umhverfis Mosfellsbæ og er hægt að velja fjöll sem hentar aldri og getu allra í fjölskyldunni. Þá er mjög gaman að ganga inn Mosfellsdal, til að mynda frá Gljúfrasteini, meðfram Köldukvísl og upp að Helgufossi og tekur um klukkutíma hvora leið.

Tveir golfvellir
Tveir golfvellir eru í Mosfellsbæ. Hlíðarvöllur við Leiruvog og Bakkakotsvöllur skammt hjá Mosfelli í Mosfellsdal. Á báðum völlunum er öflugt barna- og unglingastarf. Þá er í nýjasta hverfinu í Mosfellsbæ prýðisgóð sundlaug, Lágafellslaug sem tekin var í notkun fyrir fáum árum. 

Víkingaleikvöllurinn í Leirvogstungu
Skiphóll – Víkingaleikvöllurinn við Kvíslartungu í Leirvogstunguhverfi  - er með víkingaþema. Þar eru víkingaskip og víkingakastali sem hægt er að klifra í og ærslast. Heiti leiktækjanna á víkingavellingum eiga sér allar skírskotun í Íslendingasögur enda völlurinn í nálægð við söguslóðir. Nöfnin eru t.d. Skiphóll, Búakofi, Kolfinnsvígi, Ólafarsæti og Andríðsfley. Leikvöllurinn er staðsettur fyrir neðan Kvíslartungu sem er neðst í hverfinu. Þá er Stekkjarflöt leikvöllur í nálægð við Álafosskvos meðfram Varmá í Mosfellsbæ. Þar er stórt svæði með leiktækjum sem eru löguð að náttúrunni, þrautir og annað skemmtilegt að skátastíl fyrir eldri börnin.

ÆVINTÝRAGARÐURINN Í ULLARNESBREKKUM
Ævintýragarðurinn sem staðsettur er í Ullarnesbrekkum er fyrir alla fjölskylduna hlaðinn spennandi leiktækjum sem skátafélagið Mosverjar settu upp. Þar er um að ræða ýmis klifur- og þrautatæki ásamt veglegum hlaupaketti sem hægt er að sveifla sér í. Einnig er klifurnet í miðjum garðinum, nálægt íþróttavellinum, sem er vinsælt meðal yngri kynslóðarinnar.

STEKKJARFLÖT VIÐ ÁLAFOSSKVOS
Lystigarðurinn Stekkjarflöt er leikvöllur í nálægð við Álafosskvos meðfram Varmá í Mosfellsbæ. Þar er stórt svæði með leiktækjum sem eru löguð að náttúrunni, þrautir og annað skemmtilegt að skátastíl fyrir eldri börnin. Falleg tjörn skartar mitt svæðið með skemmtilegri höfn þar sem ungir ofurhugar geta komið með litla mótorbáta og reynt fimi sína. 
Fallegt fuglalíf má einnig sjá á tjörninni og má þá sjá til gamans og yndisauka fólk að gefa öndunum með unga sína brauð.

Útimarkaðir
Á hverjum laugardegi frá miðjum júlí og fram í september er útimarkaður Mosskóga í Mosfellsdal sem skemmtilegt er heim að sækja, ekki síst í því skyni að upplifa stemninguna. Þar er fjölbreytt framboð af ýmsum varningi, lífrænt ræktuðu grænmeti af svæðinu, heimagerðar sultur, pestó og annað matarkyns, blóm, silungur úr Þingvallavatni og margt fleira. Síðustu helgina í ágúst ár hvert Mosfellingar síðan veglega fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi; en á dagskránni eru tónleikar, markaðir, sölubásar, ratleikir, listflug, varðeldur og brekkusöngur, skrúðgöngur og margt fleira.

Með því að smella á hlekki hér neðar má skoða ýmsa útivistarmöguleika auk korta og loftmynda af Mosfellsbæ.

Ýmis gagnleg KORT af skemmtilegum leiðum í mosfellsbæ.