Mosfellingur ársins

Óskar Vídalín valinn Mosfellingur 2018Óskar Vídalín Mosfellingur ársins 2018

Mosfellingur ársins 2018 er Óskar Vídalín en hann hefur ásamt öflugum hópi stofnað Minningarsjóð Einars Darra og hrint að stað þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf.

Óskar missti 18 ára gamlan son sinn Einar Darra í maí sl. eftir neyslu lyfseðilsskyldara lyfja. „Ég er ótrúlega þakklátur og tek á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd okkar allra sem standa að Minningarsjóðnum. Við höfum fengið mikla hjálp og frábærar móttökur alls staðar, Mosfellingar hafa sýnt okkur mikinn stuðning og styrk og fyrir það erum við gríðarlega þakklát,“ segir Óskar.

Markmiðið að opna á umræðuna
Það eru foreldrar og systur Einars Darra, þau Óskar Vídalín, Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr og Aníta Rún sem eru forsvarsmenn Minningarsjóðsins.

„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt vandamál meðal ungmenna að stofna minningarsjóð í hans nafni. Við vildum nálgast þetta verkefni í kærleika því það er alveg í anda Einars Darra. Markmiðið er að opna umræðuna og vekja athygli á vandamálinu því við uppgötvuðum hvað við vissum lítið og hvað þetta kom okkur mikið á óvart.“

Forvarnafræðsla og þjóðfundur
„Við byrjuðum á að vekja athygli á málstaðnum með bleikum armböndum, hettupeysum, húfum og fleiru. Við vorum áberandi á útihátíðum og öðrum viðburðum í sumar. Við völdum bleika litinn af því að það var uppáhalds liturinn hans Einars Darra.

Við stofnuðum sjóðinn fyrst og fremst til að fara af stað með forvarnafræðslu. Við höfum fengið gríðarlega mikla aðstoð og góða styrki og hefjum fræðslu í grunnskólum í febrúar. Hún er gjaldfrjáls og verður beint að börnum, foreldrum og kennurum,“ segir Óskar.

Þau sem standa að Minningarsjóðnum eru greinilega bara rétt að byrja en fyrirhugað er að halda þjóðfund unga fólksins í apríl. „Við erum að skipuleggja ásamt góðu fólki fund þar sem hugsunin er að fá ungt fólk alls staðar að af landinu til að taka þátt í umræðum og lausnum á þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir eins og kvíða, vanlíðan og fleira.“

Héldu óhefðbundin jól
„Við ákváðum að halda aðfangadag á óhefðbundinn hátt. Við byrjuðum á að fara á Vog og á fíknigeðdeild Landspítalans með um 100 jólagjafir. Við borðuðum saman á heimili Báru og fjölskyldu á Akranesi og opnuðum pakkana snemma. Svo vorum við öll saman klukkan 18:00 í kirkjugarðinum við leiði Einars Darra.

Við höfum fengið sterk viðbrögð við þessari leið sem við völdum til að vinna úr sorginni. Við gáfum meðal annars út myndband þar sem birtar eru myndir af látnum einstaklingum og vekja athygli á því að bak við hvern einstakling situr eftir stór hópur, fjölskylda og vinir. Viðbrögðin við því hafa verið mjög sterk og við vonum að þetta skili sér og hjálpi öðrum.

Þegar maður verður fyrir svona áfalli þarf maður að taka ákvörðun og ég segi fyrir mig að starfið í kringum Minningarsjóðinn hjálpar mér að takast á við sorgina,“ segir Óskar að lokum.---

Mynd: Raggi Óla

Jón Kalman StefánssonRithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson hefur verið útnefndur Mosfellingur ársins 2017 af bæjarblaðinu Mosfellingi.

Hann gaf út skáldsöguna Saga Ástu fyrir jólin og fékk hún hvern fimm stjörnu dóminn á fætur öðrum.

Jón Kalmann er einn af fremstu rithöfundum þjóðarinnar og hefur margsinnis verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Á árinu var hann jafnframt orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Jón Kalman býr með eiginkonu sinni, börnum og hundi í Svöluhöfða og hefur fjölskyldan búið í Mosfellsbæ í rúm 20 ár.

„Maður er bara glaður að fólki finnst ástæða til þess að velja mig,“ segir Jón Kalman um útnefningu Mosfellings. „Þá kannski hefur maður gert eitthvað gott.“ -

Fyrsta bók Jóns Kalmans kom út árið 1988 og á hann því 30 ára rithöfundaafmæli á árinu. Hann hefur gefið út 3 ljóðabækur og 12 skáldsögur.

Í kvöld verður Himnaríki og helvíti frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.

---

Mynd: Raggi Óla
Bæjarblaðið Mosfellingur hefur staðið fyrir vali á Mosfellingi ársins síðastliðin ár.
Áður hafa hlotið nafnbótina:

Sigursteinn PálssonFyrstur til að hljóta heiðurstitilinn "Mosfellingur ársins" er Sigsteinn Pálsson fyrrverandi bóndi á Blikastöðum. Sigsteinn gegndi á árum áður fjölmörgum trúnaðarstörfum í bæjarfélaginu ásamt því að vera stórbóndi á Blikastöðum, bænum sem hann er ávallt kenndur við. Sigsteinn stóð á tímamótum á nýliðnu ári en þann 16. febrúar fagnaði hann 100 ára afmæli sínu. Sigsteinn er elsti íbúi Mosfellsbæjar og hefur í gegnum árin verið mjög ern.

Mosfellingur óskar Sigsteini til hamingju og velfarnaðar. Í opnu blaðsins er stiklað á stóru í lífshlaupi Sigsteins.

Mosfellingur hyggst gera það að árlegum viðburði í fyrsta tölublaði hvers árs að velja Mosfelling ársins.

Hjalti Úrsus Árnason Kraftakarlinn og kerfisfræðingurinn landsþekkti Hjalti „Úrsus” Árnason er Mosfellingur ársins 2006.

Hjalti er einn mesti afreksmaður landsins í kraftlyftingum og hefur unnið til fjölda titla sem slíkur, bæði hérlendis sem og erlendis. Undanfarin ár hefur hann lagt metnað sinn í að skrásetja sögu eins þekktasta aflraunamanns Íslands, Jóns Páls Sigmarssonar. Mynd hans, sem ber heitið „Þetta er ekkert mál”, er mest sótta heimildamynd sem gerð hefur verið á Íslandi og er meðal annars tilnefnd til Edduverðlaunanna. Hátt í 12.000 manns hafa séð þessa heimildamynd sem hefur vakið mikla athygli. Mikill áhugi er meðal erlendra kvikmyndargerðarmanna að fá hana sýnda. Sala myndarinnar hérlendis í formi DVD er þegar komin í gullsölu sem er ótvírætt merki þess að myndin hafi fallið í góðan jarðveg. „Það er von mín að minningin um Jón Pál, þennan frábæra félaga og vin, gleymist aldrei”, sagði Hjalti. Að lokum vildi Hjalti bæta við að sú nafnbót að vera Mosfellingur ársins væri sannur heiður.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir mig og heiður," segir Hjalti „Úrsus" Árnason, kraftlyftinga- og kvikmyndagerðarmaður. Hjalti var fyrir skömmu útnefndur Mosfellingur ársins 2006 en það er bæjarblaðið Mosfellingur sem veitir viðurkenninguna. Heiðurstitilinn fékk Hjalti meðal annars fyrir störf sín í þágu kraftlyftinga hér á landi sem og fyrir mynd sina um Jón Pál Sigmarsson.
Jóhann Ingi GuðbergssonJóhann Ingi Guðbergsson

Jóhann Ingi, sundlaugarvörður í Lágafellslaug, er Mosfellingur ársins 2007. Jóhann Ingi bjargaði lífi tveggja ára stúlku sem hafði verið á kafi í tæpar tvær mínútur áður en endulífgun hófst. Hann gafst ekki upp þrátt fyrir lítinn árangur í fyrstu en eftir ítrekaðar tilraunir komst hún til meðvitundar. Jóhann Ingi hafði nýlokið skyndihjálparnámskeiði og átti ekki von á því að þurfa nýta þessa kunnáttu eftir að hafa starfað í einungis viku við sundlaugina. „Þetta er kraftaverki líkast og þessi atburður á seint eftir að líða mér úr minni. Það besta við þetta er að stúlkunni varð ekki meint af.” Jóhann Ingi er 18 ára gamall og mælir hiklaust með því að fólk læri skyndihjálp og kunni að nota hana.
Albert RútssonMosfellingur ársins 2008 er athafnamaðurinn og hóteleigandinn Albert Sigurður Rútsson.

Á árinu opnaði Albert glæsilegt hótel í Mosfellsbæ, Hótel Laxnes. Alli Rúts, eins og hann er oftast kallaður er landskunnur skemmtikraftur og rak á árum áður eina þekktustu bílasölu landsins.
Hótel Laxnes er með glæsilegri byggingum í Mosfellsbæ en hótelið opnaði í byrjun septembermánaðar. Kemur þetta fram í bæjarblaðinu Mosfellingi sem veitir nafnbótina. Hótelið er búið 25 herbergjum og getur tekið á móti rúmlega 50 gestum.
Það var Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings sem afhenti Alberti viðurkenninguna.
Embla ÁgústsdóttirEmbla Ágústsdóttir hefur verið valin Mosfellingur ársins 2009 af bæjarblaðinu Mosfellingi í Mosfellsbæ. Embla lætur hreyfihömlun ekki hindra sig í að lifa lífinu og ná háleitum markmiðum sínum í námi og starfi, að því er fram kemur í blaðinu.

Þar segir jafnframt að með því að miðla af reynslu sinni og lífssýn hafi hún unnið að því að breyta viðhorfum til fatlaðra og fengið fólk til að skilja að þó hreyfihömlun sé áskorun þá sé hún ekki endilega afsökun.

Embla hefur að undanförnu haldið fjölda fyrirlestra sem tengjast málefnum fatlaðra. Embla er nemandi á félagsfræðibraut í borgarholtsskóla og stefnir á háskólanám í fötlunar- og kynjafræðum.

Steinþór Hróar SteinþórssonSteindi Jr. valinn Mosfellingur ársins


Steindi Jr. Mosfellingur ársinsSteinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr. hefur verið valinn Mosfellingur ársins 2010 af bæjarblaðinu Mosfellingi. Hann hefur slegið rækilega í gegn í nýrri gamanþáttaröð á Stöð 2 sem nefnist Steindinn okkar. Í kjölfarið átti hann vinsælasta lag landsins, var andlit auglýsingaherferða og er orðinn þekkt andlit í íslensku gríni.

Steindi hefur alla tíð lagt áherslu á Mosfellsbæ í sinni þáttagerð og fær bæjarbúa óhikað í lið með sér en einnig hefur leikfélagið verið honum hjálplegt. “Þetta er einn mesti heiður sem ég hef hlotið,” segir Steindi og bætir við að hann sé stoltur Mosfellingur.

Á myndinni má sjá Steinda taka við viðurkenningu úr höndum ritstjóra Mosfellings. 
Hanna Símonardóttir Mosfellingur ársins 2011Hanna Símonarsdóttir valin Mosfellingur ársins mosfellingur ársins 2011

Fótboltamamman og athafnakonan Hanna Símonardóttir hefur verið valin Mosfellingur ársins 2011 af bæjarblaðinu Mosfellingi. Hanna hefur um árabil verið ein aðal driffjöðurin í starfi Aftureldingar. Hún er ma. upphafsmaður risa þorrablóts Aftureldingar í þeirri mynd sem það er í dag auk þess sem hún á veg og vanda að knattspyrnuskóla Aftureldingar og Liverpool. „Lífið er fótbolti,“ segir Hanna Símonardóttir sem tileinkar Aftureldingu nafnbótina eftir 14 ára starf sem sjálfboðaliði í þágu félagsins. „Mitt hjartans mál er að byggt verði knattspyrnuhús í Mosfellsbæ,” segir Hanna Símonardóttir sem er hvergi nærri hætt að láta got að sér leiða fyrir Aftureldingu og samfélagið í Mosfellsbæ.

Greta SalómeGreta Salóme valin Mosfellingur ársins 2012

Söngkonan og fiðluleikarinn Greta Salóme Stefánsdóttir hefur verið valin Mosfellingur ársins. Árið 2012 var sannkölluð rússíbanareið hjá Gretu Salóme frá því að hún sigraði forkeppni Eurovision hér heima í febrúar með laginu Mundu eftir mér. Greta samdi lagið og textann sjálf og flutti það ásamt Jóni Jósep Snæbjörnssyni. Greta og Jónsi sungu sigurlagið á stóra sviðinu í Baku í Aserbaídsjan og komust áfram á úrslitakvöld söngvakeppni Eurovision.

„Þetta er frábær viðurkenning. Mér þykir afskaplega vænt um bæinn minn og hef fundið fyrir miklum stuðningi frá Mosfellingum. Allt sem hefur verið í gangi hjá mér síðustu árin er að mörgu leyti Mosfellsbæ að þakka og hafa bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ stutt ótrúlega vel við bakið á mér,“ segir Greta Salóme í samtali við bæjarblaðið Mosfelling sem stendur fyrir valinu.

Greta Salóme gaf út sína fyrstu plötu í desember sem ber titilinn In The Silence og hefur hún fengið mjög góð viðbrögð. Fyrir jólin var hún svo ein aðalstjarnan í Frostrósum. Þá kláraði Greta mastersnám í tónlist frá Listaskóla Íslands í maí síðastliðnum og stefnir jafnvel á doktorsnám með haustinu. Greta spilar einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands og æfir Crossfitt af kappi.
Kaleo Mosfellingur ársins 2013Hljómsveitin Kaleo valin Mosfellingur ársins 2013

 

Hljómsveitin Kaleo hefur verið valin Mosfellingur árins 2013 af bæjarblaðinu Mosfellingi í Mosfellsbæ. Hljómsveitina skipa þeir Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock.

Kaleo sló rækilega í gegn á árinu 2013.
Síðasta vor gaf hljómsveitin út endurgerða útgáfu af gamla laginu Vor í Vaglaskógi. Lagið kom þeim á kortið og hafa þeir verið óstöðvandi síðan. 

„Við erum gríðarlega stoltir að hljóta þessa nafnbót og má segja að þetta setji punktinn yfir i-ið á árinu 2013 sem hefur verið ævintýri líkast," segja strákarnir í samtali við Mosfelling.
Þeir gáfu út sína fyrstu plötu á árinu sem varð sú næst mest selda á Íslandi fyrir jólin. Þá er Jökull söngvari tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins.
Þetta er í níunda sinn sem Mosfellingur ársins er valinn.

Jóhanna valin Mosfellingur ársins 2014Jóhanna valin Mosfellingur ársins 2014


Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, fyrsti sigurvegari Biggest Loser á Íslandi, hefur verið valin Mosfellingur ársins 2014. „Það hefur orðið kúvending í mínu lífi og árið 2014 var vægast sagt viðburðaríkt. Ég fór að hugsa um heilsuna og setti sjálfa mig í fyrsta sætið. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um þegar ég skráði mig í The Biggest Loser og ætlaði mér frá byrjun að vinna þetta,“ segir Jóhanna í viðtali við Mosfelling.

Jóhanna léttist um rúm 52 kg og hafði lést um 12 kg áður en þættirnir hófust.
„Næsta skref er að hjálpa öðrum,“ segir Jóhanna sem stefnir að því að útskrifast sem einkaþjálfari í vor.

Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu og er Jóhanna sú tíunda í röðinni. Hún tekur við titlinum af hljómsveitinni Kaleo sem bar nafnbótina árið 2013.

Sigrún valin Mosfellingur ársins 2015

Sigrún valin Mosfellingur ársins

Sigrún Þ. Geirsdóttir hefur verið valin Mosfellingur ársins 2015. Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu en Sigrún er sú ellefta til að hljóta titilinn.

Sigrún vann það þrekvirki á árinu 2015 að synda fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið. Sigrún sem hefur stundað sjósund undanfarin ár og hafði áður synt boðsund í tvígang yfir Ermarsundið sem varð kveikjan að því að hana langaði að gera þetta ein.
Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sundmanna,“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Bakgrunnur Sigrúnar í íþróttum er enginn og lærði hún skriðsund fyrir þremur árum síðan. Þetta afrek hennar er því ótrúlegt.

Ótrúlegur heiður
„Þetta er æðislegt, ég var tilnefnd sem maður ársins af ýmsum fjölmiðlum en það er ótrúlegur heiður að hljóta nafnbótina Mosfellingur ársins, það er svakalega skemmtilegt,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé alltaf endurnærð þegar hún komi upp úr sjónum, skilji áreiti og áhyggjur eftir og finni fyrir meiri jarðtengingu.
„Þegar ég ákvað að fara í þetta sund átti ég ekki von á allri þessari athygli, ég er nú frekar feimin og því er þetta bæði gaman og erfitt. Þetta var ótrúlegt ævintýri og ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa klárað sundið og ekki gefist upp þrátt fyrir mikið mótlæti á leiðinni.“

Samsvarar 1.254 ferðum í Lágafellslaug
Vegalengdin beint yfir sundið er 33 km en ég synti 62,7 km á 22 klukkustundum og 34 mínútum.
„Ég byrjaði vel en eftir rúmlega þrjá klukkutíma varð ég sjóveik og kastaði upp eftir hverja matargjöf í sjö tíma. Þegar ég var búin að synda í 10 klukkutíma komst ég þó yfir sjóveikina, þá var brugðið á það ráð að gefa mér súkkulaði, kók og Jelly Babies að borða. Það er líklega einsdæmi að einhver hafi synt yfir Ermarsundið á þessu fæði.“
Vegalengdin sem Sigrún synti samsvarar 1.254 ferðum fram og til baka í Lágafells­laug og það í gríðarlega miklum straumum, öldum og að hluta til í svarta myrkri.

Snýst um rétta hugarfarið
Sund Sigrúnar hefur vakið mikla athygli. „Ég hef haldið þónokkra fyrirlestra og mér finnst það voða skemmtilegt. Ég fjalla þá um undir­búninginn en hann er rosalega mikilvægur, bæði æfingarnar og ekki síst hugarfarið.
Ég segi frá lífi mínu áður en ég byrjaði að stunda sjósund og þá aðalega heilsufarslega. Sýni svo myndband af sundinu en fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er fyrr en það sér myndbandið og verður svolítið slegið þegar það sér myrkrið, öldurnar og líkamlegt og andlegt ástand mitt,“ segir Sigrún að lokum.

Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu og er Jóhanna sú ellefta í röðinni. Hún tekur við titlinum af Jóhönnu Elísu Engelharsdóttir sem bar nafnbótina árið 2014.

Sigrún Þ. Geirsdóttir Mosfellingur 2015

Guðni Valur Guðnason, ÓlympíufarinnGuðni Valur Mosfellingur ársins 2016

Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason hefur verið útnefndur Mosfellingur ársins 2016 af bæjarblaðinu Mosfellingi.
Guðni Valur hefur tekið gríðarlegum framförum í greininni þau þrjú ár sem hann hefur stundað kringlukast af fullum krafti. Áður hafði Guðni æft aðrar greinar í frjálsum, golf, körfubolta og ýmsar íþróttir sem krakki.
„Það skipti í rauninni ekki máli í hvaða grein maður var þegar maður var yngri en langskemmtilegasta mótið var Goggi Galvaski sem haldið var hérna í Mosó,“ segir Guðni Valur.

Sækir reynslu til besta kastara landsins
Guðni Valur æfði með Aftureldingu á sínum yngri árum en keppir nú fyrir hönd ÍR undir dyggri handleiðslu Péturs Guðmundssonar. Þar sækir Guðni Valur mikla reynslu og þekkingu hjá einum besta kastara sem Íslendingar hafa eignast
Guðni Valur kastaði 60,45 m á Ólympíuleikunum í sumar og lenti í 21. sæti af 35 þátttakendum. Þá gerði hann góða ferð til Finnlands á árinu þar sem hann landaði Norðurlandameistaratitli í flokki 23 ára og yngri. Hann vann einnig gull á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru á Möltu.

Ætlar sér stóra hluti á árinu
Guðni Valur setur markið hátt á árinu og ætlar sér að komast á Heimsmeistaramótið í sumar og vinna Evrópumeistaramótið í sínum aldurshópi. Lágmarkið fyrir HM er 65 m en besti árangur Guðna er 63,5 m. „Ég á nóg inni og ætla mér stóra hluti.“ Þá er stefnan tekin á Smáþjóðaleika og fjölda annarra móta og keppnisferða á árinu.
Guðni Valur var á dögunum útnefndur frjálsíþróttakarl ársins og hlaut einnig titilinn íþróttakarl ÍR 2016. „Það er hrikalega skemmtilegt að bæta nafnbótinni Mosfellingur ársins við í safnið og mun ég bera titilinn stoltur,“ segir þessi framúrskarandi íþróttamaður sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.

--------------------
Mynd:
Guðni Valur tekur við viðurkenningunni úr höndum Hilmars ritstjóra Mosfellings.