Stjórn Mosfellsbæjar - breyting á samþykkt

13.08.2018
Nr. 730  9. júlí 2018

 
SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar, nr. 238/2014.


1. gr.
Lokamálsliður 2. mgr. 7. gr. samþykktarinnar fellur á brott.

2. gr.
Við 8. gr. samþykktarinnar bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
Bæjarstjórn er heimilt að fella niður reglulegan fund sinn enda sé tillaga um slíkt samþykkt mótatkvæðalaust á næsta bæjarstjórnarfundi á undan.

3. gr.
Í stað síðustu tveggja málsliða e-liðar 15. gr. samþykktarinnar kemur: Bæjarstjórnarmaður skal flytja mál sitt úr ræðustól nema forseti leyfi annað.

4. gr.
6. mgr. 18. gr. samþykktarinnar fellur brott.

5. gr.
5. mgr. 19. gr. samþykktarinnar fellur brott.

6. gr.
Við 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar bætist: að svo miklu leyti sem lög heimila að slíkar upplýsingar séu teknar saman.

7. gr.
Við 22. gr. samþykktarinnar bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
Missi bæjarstjórnarmaður kjörgengi skal hann víkja úr bæjarstjórn.

8. gr.
32. gr. samþykktarinnar orðast svo ásamt fyrirsögn:
Afgreiðsla beiðna um endurupptöku.
Beiðni um endurupptöku máls þar sem bæjarráð, fastanefnd eða starfsmaður hefur tekið fullnaðarákvörðun á grundvelli sérstakrar heimildar í samþykkt þessari, skal beina til bæjarráðs sem tekur afstöðu til beiðninnar.

9. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. samþykktarinnar:

a. Í stað orðanna „nefnd, ráði eða stjórn“ í 2. mgr. kemur: fastanefnd.
b. Í stað orðanna „öðrum aðilum“ í 3. mgr. kemur: einstökum starfsmönnum.
c. 5. mgr. orðast svo:
Sá starfsmaður sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu skv. 3. mgr., eða þriðjungur fulltrúa ef um fastanefnd er að ræða, sbr. 2. mgr., getur ávallt óskað eftir því að bæjarstjórn, bæjarráð eða viðkomandi nefnd samkvæmt samþykkt þessari taki ákvörðun um erindi.
d. Í stað orðsins „uppgefnum“ í 6. mgr. kemur: uppfylltum.

10. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. samþykktarinnar:

a. Lokamálsliður 1. tölul. B-liðar fellur brott.
b. Við B-lið bætist nýr töluliður sem verður 4. tölul. og orðast svo:
Nr. 730 9. júlí 2018
Lýðræðis- og mannréttindanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar. Nefndin fer með lýðræðismál og mannréttindamál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Jafnframt fer nefndin með jafnréttismál eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
c. 5. tölul. (áður 4. tölul) B-liðar orðast svo:
Menningar- og nýsköpunarnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar. Menningar- og nýsköpunarnefnd fer með menningar-, þróunar- og atvinnumál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Nefndin fer með málefni Bókasafns Mosfellsbæjar, sbr. bókasafnalög nr. 150/2012. Nefndin er bæjarstjórn til ráðuneytis um verndun gamalla húsa og fornra minja samkvæmt safnalögum nr. 140/2011 og lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Nefndin fer með vinabæjarsamskipti, málefni félagsheimilisins Hlégarðs, hefur umsjón með listaverkaeign bæjarins og fer með málefni Lista- og menningarsjóðs bæjarins. Þá annast nefndin viðurkenningar fyrir verkefni á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar.
d. Í stað tilvísunar til laga nr. 44/1999 í 7. tölul. (áður 6. tölul.) B-liðar kemur tilvísun til laga nr. 60/2013.
e. 9. tölul. (áður 8. tölul.) B-liðar fellur brott.
f. Í stað „innanríkisráðuneytisins“ í 1. tölul. C-liðar kemur: ráðuneytisins.

11. gr.
Í stað „Framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs“ í 7. mgr. 48. gr. samþykktarinnar kemur: Forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar.

12. gr.
Í samræmi við heimild 35. gr. samþykktarinnar bætast við samþykktina tveir viðaukar, viðauki I um embættisafgreiðslu skipulagsfulltrúa og viðauki II um embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa.
Viðaukarnir eru birtir með samþykkt þessari.

13. gr.
Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur sett skv. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 9. júlí 2018.
F. h. r.
Hermann Sæmundsson.
Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Nr. 730 9. júlí 2018

VIÐAUKI I
Embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa.


1. gr.
Skipulagsfulltrúinn í Mosfellsbæ afgreiðir án staðfestingar skipulagsnefndar og bæjarstjórnar mál, sem talin eru upp í 2. gr. þessa viðauka og falla undir skipulagslög, nr. 123/2010, og skilgreind eru sem verkefni skipulagsnefndar, sbr. heimild í 35. gr. samþykktar þessarar og 42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með síðari breytingum.

2. gr.
Skipulagsfulltrúa er heimilt, sbr. 1. gr.:

a. að ákveða að grenndarkynna tillögur að óverulegum breytingum á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga,
b. að fullnaðarafgreiða til Skipulagsstofnunar auglýstar eða grenndarkynntar tillögur að breytingum á deiliskipulagi, sem engar athugasemdir hafa borist við og auglýsa gildistöku þeirra í Stjórnartíðindum, sbr. 1. mgr. 42. gr. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, nema skipulagsnefnd hafi ákveðið annað þegar tillaga var samþykkt til auglýsingar eða grenndarkynningar.

Afgreiðslur skipulagsfulltrúa skv. stafliðum a og b skulu fara fram á formlegum afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa og skulu haldnar fundargerðir yfir afgreiðslur hans með sama hætti og gildir um fastanefndir Mosfellsbæjar.

3. gr.
Framangreindar afgreiðslur skipulagsfulltrúa skulu lagðar fram til kynningar á næsta reglulega fundi bæjarstjórnar.

4. gr.
Skipulagsfulltrúi getur ávallt vísað máli skv. 2. gr. til afgreiðslu skipulagsnefndar. Ef ætla má að aðili máls muni ekki sæta niðurstöðu skipulagsfulltrúa skal hann vísa málinu til afgreiðslu nefndarinnar.

5. gr.
Um afgreiðslur skipulagsfulltrúa gilda eftir því sem við á ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, ásamt ákvæðum í þeim reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna.

6. gr.
Óski aðili frekari rökstuðnings vegna afgreiðslu skipulagsfulltrúa skv. 2. gr. eða komi hann á framfæri kvörtun, skal honum leiðbeint um heimild til að óska endurupptöku erindis í bæjarráði með hliðsjón af 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telji bæjarráð að skilyrði um endurupptöku séu fyrir hendi skal skipulagsnefnd taka erindið upp að nýju.
Aðila máls skal leiðbeint um rétt hans til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 130/2011, þ. á m. um kærufrest.
Nr. 730 9. júlí 2018

VIÐAUKI II
Embættisafgreiðslur byggingarfulltrúa.


1. gr.

Byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ afgreiðir án staðfestingar skipulagsnefndar og bæjarstjórnar mál, sem talin eru upp í 2. gr. þessa viðauka og falla undir lög um mannvirki nr. 160/2010 og skilgreind eru sem verkefni skipulagsnefndar, sbr. heimild í 35. gr. samþykktar þessarar og 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 með síðari breytingum.

2. gr.
Byggingarfulltrúa er heimilt, sbr. 1. gr., að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 2.4.4. gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
Afgreiðslur byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. skulu fara fram á formlegum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og skulu haldnar fundargerðir yfir afgreiðslur hans með sama hætti og gildir um fastanefndir Mosfellsbæjar.

3. gr.
Framangreindar afgreiðslur byggingarfulltrúa skulu lagðar fram til kynningar á næsta reglulega fundi bæjarstjórnar.

4. gr.
Byggingarfulltrúi getur ávallt vísað máli skv. 2. gr. til afgreiðslu skipulagsnefndar. Ef ætla má að aðili máls muni ekki sæta niðurstöðu skipulagsfulltrúa skal hann vísa málinu til afgreiðslu nefndarinnar.

5. gr.
Um afgreiðslur skipulagsfulltrúa gilda eftir því sem við á ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010, ásamt ákvæðum í þeim reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna og samþykkta bæjarstjórnar er til þeirra taka.

6. gr.
Óski aðili frekari rökstuðnings vegna afgreiðslu byggingarfulltrúa skv. 2. gr. eða komi hann á framfæri kvörtun, skal honum leiðbeint um heimild til að óska endurupptöku erindis í bæjarráði með hliðsjón af 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telji bæjarráð að skilyrði um endurupptöku séu fyrir hendi skal skipulagsnefnd taka erindið upp að nýju.
Aðila máls skal leiðbeint um rétt hans til að skjóta málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 130/2011, þ. á m. um kærufrest.

__________
B-deild – Útgáfud.: 24. júlí 2018

Til baka