Sjálfbært samfélag

Mosfellsbær hefur markað sér stefnu um sjálfbært samfélag til ársins 2020 og er stefnan niðurstaða vinnu verkefnisstjórna Staðardagskrár 21 í Mosfellsbæ og var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar í júlí 2009. Í henni má sjá framtíðarsýn bæjarfélagsins um sjálfbært samfélag og helstu atriði sem leggja verður áherslu á til að markmið um sjálfbæra þróun megi fram að ganga.

Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem sú þróun sem gerir okkur kleift að uppfylla þarfir okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Í því felst að við skilum jörðinni af okkur ekki í verra ástandi til komandi kynslóða en við tókum við henni.

Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina, sem sveitarstjórnum heimsins er ætlað að setja fram í samræmi við ályktun heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiró 1992. Um er að ræða velferðaráætlun þar sem horft er til langtímasjónarmiða og jafnt tekið tillit til umhverfislegra, fjárhagslegra og félagslegra þátta.

Bæklingnum Mosfellsbær - sjálfbært samfélag (.pdf 3,5 MB) má einnig fletta með því að smella á mynd hér að neðan: