Garðyrkjudeild

Garðyrkjudeild sér um uppbyggingu, hirðingu og viðhald opinna svæða, leiksvæða og stofnanalóða, leikskóla- og skólalóða. Einnig sér garðyrkjudeildin vinnuskólanum fyrir verkefnum á sumrin.

Garðyrkjudeild hefur umsjón með leigu matjurtagarða til almennings sem eru starfræktir frá maí til september. Garðarnir eru leigðir út tættir og merktir.

Garðyrkjudeild sér um fegrun bæjarins eins og skipulagningu og plöntun sumarblóma, gróðursetningu trjá og runna og uppsetningu og skipulags jólaskrauts í bænum.

Grassláttur er að stórum hluta í höndum verktaka.

Hvar er gras slegið yfir sumartímann?

Gras á opnum svæðum, leiksvæðum, við götur og á lóðum grunn- og leikskóla Mosfellsbæjar er slegið 3-10 sinnum yfir sumarið. Ekki er slegið innan lóða hjá fólki og eru íbúar hvattir til að kynna sér lóðamörk sem hægt er að sjá á kortavef Mosfellsbæjar.

 

Skógrækt í Mosfellsbæ

Mosfellsbær hefur gert samstarfssamning við Skógræktarfélags Mosfellsbæjar um skógrækt á völdum svæðum í Mosfellsbæ. Þau svæði eru við Lágafell, Úlfarsfell, Helgafell, Mosfell, Norður-Reyki, Æsustaðafjall og Meltún í Reykjahverfi.

Árið 2011 var undirritaður samstarfssamningur Mosfellsbæjar, Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Hestamannafélagsins Harðar um umfangsmikla umgræðslu og skógrækt á Langahrygg í Mosfellsdal.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hefur umsjón með glæsilegu útivistarsvæði við Hamrahlíð þar sem er fjöldi fallegra gönguleiða og útivistarmöguleika.

Matjurtagarðar í Mosfellsbæ

Íbúum í Mosfellsbæ stendur til boða að leigja matjurtagarða hjá Mosfellsbæ yfir sumartímann. Matjurtagarðar bæjarins eru staðsettir austan Varmárskóla.

Útleiga matjurtagarða bæjarins fer venjulega fram í maí og tekur Heiða Ágústsdóttir, verkefnastjóri garðyrkju, á móti umsóknum í tölvupósti, heida[hja]mos.is.

Algengar spurningar um garðyrkju

Nauðsynlegt er að taka tillit til nágranna þegar kemur að gróðursetningum og viðhaldi gróðurs á lóðarmörkum. Hár gróður getur skyggt á útsýni nágranna og valdið ónæði sé viðhaldi hans ábótavant. Gróður sem vex út fyrir lóðarmörk að gangstéttum og stígum bæjarins getur hindrað umferð gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna og jafnvel skapað hættu. Einnig getur gróður þannig skyggt á umferðarmerki, götumerkingar og lýsingu. Æskilegt er að íbúar gæti vel að því að gróður skagi ekki langt út fyrir lóðarmörk og ef ástæða þykir til er bæjaryfirvöldum heimilt að klippa og fjarlægja þann gróður á kostnað lóðarhafa.

Í byggingarreglugerð er skýrt kveðið á um að lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka. Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 metra og við lóðarmörk má hæð þeirra ekki verða meiri en 1,8 metrar, nema með samþykki nágranna. Trjágróður sem liggur að götu, gangstétt eða opnu svæði má ná meiri hæð ef fyrir liggur samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.

Garðeigendur eru því hvattir til að klippa og snyrta allan gróður á lóðarmörkum og huga jafnframt að að garðinum öllum og næsta umhverfi.

Heppilegt getur verið að hefja grasslátt um miðjan maímánuð, en það er þó háð tíðarfari, en best er að góður vöxtur sé kominn í gras áður en slegið er. Algengast er að slegið sé u.þ.b. á 3ja vikna fresti yfir sumarið.

Þegar líður að hausti er ágætt að slá grasið ekki mjög snöggt. Á þennan hátt fer grasið hærra inn í veturinn og þannig dregur úr líkum á frostskaða.

Slætti er venjulega lokið um miðjan september, en er þó háð tíðarfari.

Í flestum tilfellum er besti tíminn til gróðursetninga á vorin og í byrjun sumars, þar sem plöntur geta verið viðkvæmari fyrir flutningi og útplöntun seinni hluta sumars (júlí til september).

Gott getur verið að vökva rætur, t.d. hnausinn eða pottinn, vel fyrir gróðursetningu. Sem dæmi má nefna að oft getur reynst vel að dýfa rótarhnausnum (í striga eða potti) í vatn þar til hann er gegnblautur.

Heppilegast er að planta trjám og runnum í sömu dýpt og þau stóðu áður, þannig að yfirborð hnaussins sé í sömu hæð og jarðvegsyfirborðið. Því næst þarf að fylla vel að rótunum með næringarríkri moldarblöndu og þjappa vel að rótarhnaus.

Nauðsynlegt er að vökva vel fyrstu vikurnar eftir útplöntun þannig að vatnið nái að bleyta jarðveginn um 20-30 cm niður fyrir yfirborðið. Gera má ráð fyrir að um 10-20 lítra af vatni þurfi á hverja meðalstóra plöntu.

Í Mosfellsbæ ber mönnum skylda til að sækja um leyfi til að fella tré sem eru hærri en 8 metrar eða eldri en 60 ára. Mikilvægt er að sækja um tilskilin leyfi áður en hafist er handa.

Flestir geta fellt venjuleg garðtré, hafi þeir rétt verkfæri og fara rétt að hlutunum. Þó skal bent á að í vissum tilfellum er nauðsynlegt að fá fagaðila til verksins, t.d. þegar um hærri tré er að ræða eða ef aðstæður eru erfiðar.

Nauðsynlegt getur verið að klippa limgerði til að móta lögun og þéttleika þess og fjarlægja skemmdar greinar. Sumar tegundir nægir að klippa einu sinni á ári, en aðrar tegundir getur þurft að klippa oftar.

Besti tíminn til að klippa limgerði er seinni hluti vetrar og fram á vor, og hægt er að klippa fram á mitt sumar. Ekki er mælt með að klippa limgerði í ágúst og fram á haust.

Nauðsynlegt getur verið að verja gróður fyrir áföllum eða álagi vegna meindýra, svepps og illgresis.

Leitið ráða hjá fagaðila áður en farið er í notkun varnarefna.

Best er að velja garðstæði þar sem skjól er gott og sólríkt, mót suðri. Jarðvegur þarf að vera heppilegur til ræktunar, ekki of blautur eða grýttur, og nægilega djúpur til að rækta þar matjurtir. Heppilegt getur verið að bæta jarðveginn með jarðvegsbæti/moltu til að auka næringagildi hans.