Hagræðing - Uppbygging - Velferð

17/12/2009
KjarniBæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti samhljóða í gærkvöldi fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.  Áætlun var unnin sameiginlega af öllum flokkum í bæjarstjórn líkt og gert var fyrir árið 2009. Megináherslur í fjárhagsáætluninni eru að standa vörð um fjölskyldur og velferð, en tryggja um leið að bæjarfélagið veiti áfram góða öfluga þjónusta. Yfirskrift fjárhagsáætlunarinnar er: Hagræðing – uppbygging – velferð.

Hagrætt verður í rekstri bæjarins til að mæta lægri tekjum sem og hækkun kostnaðar og launa svo komast megi hjá því að hækka gjaldskrár vegna þjónustu í grunn- og leikskólum og skerða styrki og heimgreiðslur. Frekari  hagræðingarkrafa hefur verið gerð á yfirstjórn sveitarfélagsins, sem og stjórnunardeildir stofnana. Starfsfólk Mosfellsbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem  áhersla er á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri hagræðingu. Hagrætt verður í viðhaldsverkefnum og forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf. Þess má geta að rekstrargjöld hafa nánast staðið í stað frá árinu 2008 þrátt fyrir mikla verðbólgu og hafa því lækkað að raungildi.

Mosfellsbær er mikill skóla- og íþróttabær og eftirsóttur af barnafjölskyldum og þar verður ekkert gefið eftir á næstkomandi fjárhagsári. Óhjákvæmilegt hefur þó verið að hagræða í rekstri skóla og leikskóla en með góðri samvinnu forstöðumanna og starfsfólks skólanna hefur tekist að takmarka eins og hægt er áhrifin af því á nemendur og barnafjölskyldur..

Stefnt er að áframhaldandi samstarfi frístundaselja við íþróttafélög um þróun íþrótta- og tómstundstarfs fyrir yngstu grunnskólanemendur, en Íþróttafjörið sem hófst í haust hefur stuðlað að þróun heildstæðs skóladags fyrir börn og fjölskyldur sem hefur verið markmið Mosfellsbæjar í mörg ár. Styrkir til íþróttafélaga aukast um 15% á milli ára, sem er til marks um þá áherslu sem lögð er á að leggja rækt við barna og unglingastarf í Mosfellsbæ.

Þá verður nýr skóli tekinn í notkun í byrjun árs, Krikaskóli, sem verður skóli fyrir eins til níu ára börn. Á árinu verður  hafist  handa við undirbúning á byggingu nýs framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar í samvinnu við ríkisvaldið. Einnig verður hafinn undirbúningur að byggingu hjúkrunarheimils að Hlaðhömrum í samvinnu við Eir og ríkisvaldið.

Gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki að raungildi milli ára. Þrátt fyrir það verði veltufé frá rekstri jákvætt um 86 mkr og áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 3,5 mkr.

Heildartekjur A og B hluta bæjarsjóðs Mosfellsbæjar á árinu 2010 eru áætlaðar 4.612 mkr. en gjöld án fjármagnsliða áætluð 4.190 mkr.  Rekstrarafgangur án fjármagnliða er áætlaður 423 mkr., fjármagnsliðir er 425 mkr. og því rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 2 mkr.

Útsvarsprósenta verður 13,19% og er enn 9 punktum undir leyfilegu hámarksútsvari. Útsvarstekjur eru áætlaðar 2.682 mkr. sem er hækkun um 2,7% milli ára. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 460 mkr. aukning um tæpar 2 mkr frá fyrra ári vegna fjölgunar íbúða. Álagningahlutfall fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis er óbreytt en fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður leiðréttur sem nemur lækkun fasteignamats.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir: “Fjárhagur Mosfellsbæjar er traustur og hafa skuldir á undanförnum árum lækkað að raungildi samfara hækkun á eiginfjárhlutfalli, þrátt fyrir lántökur ársins 2009. Það gerir bæjarsjóði kleift að takast á við það krefjandi umhverfi sem nú blasir við. Mikil og ötul vinna hefur verið lögð í að koma þessari áætlun saman og hefur það verið meira krefjandi en nokkru sinni fyrr en niðurstaðan er vel ásættanleg miðað við aðstæður. Það er okkur mikilvægt að auka ekki byrðar á barnafjölskyldur og þá sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda.”

- ENDIR -

Nánari upplýsingar:
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ s. 894 9050

Viðtöl veita:
Haraldur Sverrisson, oddviti D-lista og bæjarstjóri í s. 862 0012.
Karl Tómasson, oddviti V- lista og forseti bæjarstjórnar í s. 897 7664
Jónas Sigurðsson, oddviti S-lista í s. 665 7530
Marteinn Magnússon, oddviti B-lista í s. 660 4401

Hér að neðan má nálgast fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar:Til baka