Prjónuðu 55 vettlingapör til styrktar mæðranefnd

23/12/2009
Leikskólakennarar í leikskólanum Reykjakoti í Mosfellsbæ komu á dögunum í heimsókn í bókaforlagið Sölku  í Reykjavík og höfðu með sér 55 vettlingapör. Það var framlag þeirra til vettlingasöfnunar sem forlagið og verslanir Eymundsson hafa staðið fyrir í þágu Mæðrastyrksnefndar síðan í haust.
Í frétt frá Sölku segir að hugmyndin með verkefninu hafi fyrst og fremst að benda á stöðuga aukningu fólks sem leitar aðstoðar hjálparstofnanna hérlendis og benda á að allir geti lagt brýnum málstað lið með einhverjum hætti. Viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa og vettlingarnir streymt inn.
Fram kemur að starfsmenn Reykjakots höfðu tekið höndum saman, hist utan vinnutíma og prjónað fyrir söfnunina. Alls hafi 20 starfsmenn leikskólans tekið þátt í prjónaátakinu og við það bættust svo nokkrir foreldrar. Tvær af starfsmönnunum kunnu ekki að prjóna í upphafi, önnur þeirra var með í för í Sölku og sagði að æðið hefði gripið sig og nú prjónar hún öll kvöld.
Leikskólinn Reykjakot starfar í anda Hjallastefnunnar, starfsmannahópurinn þar er samrýmdur og vinnur náið að ýmissi handavinnu í skólastarfi og frístundum. Hópurinn greip fagnandi tækifærið að láta gott af sér leiða og hjálpa Mæðrastyrksnefnd í að hlýja litlum barnahöndum í vetur.
Til baka