Stefnt að framkvæmdum við Vesturlandsveg í vor

20/01/2010
VesturlandsvegurÚtlit er fyrir að framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar frá hringtorginu við Þverholt að Þingvallarafleggjara hefjist í vor. Hringtorgið við Varmá verður stækkað og gerðar hljóðmanir meðfram lóðum milli Álafossvegar og Áslands. Mosfellingar hafa lengi barist fyrir því að umferðaröryggi og hljóðvist á þessum kafla yrði bætt og er nú loks útlit fyrir að af því verði.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra að ræðast við um hvernig og hvenær ráðast megi í þetta verk, sem og framkvæmdir við Suðurlandsveg, og er stefnt að fundi þeirra seint í vikunni, samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu.

Að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, G. Péturs Matthíassonar,  er um að ræða framkvæmdir sem kosta munu um 500 milljónir króna. Í þeim felst tvöföldun 1,5 km kafla frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegamótum, tvöföldun hringtorgsins við Álafossveg, lenging undirganga fyrir göngu-, hjólreiða- og reiðfólk við Varmá, lenging stálundirgangna fyrir göngu- og hjólreiðafólk við Ásland, breikkun brúar yfir Varmá, gerð göngubrúar yfir Varmá, gerð reið-, göngu- og hjólreiðastíga meðfram Vesturlandsvegi, ásamt hljóðmön milli vegar og byggðar frá Álafossvegi að undirgöngum við Ásland. Hljóðmön frá Áslandi í átt að Þingvallarvegi verður stækkuð. Verkið verður unnið í samráði við Mosfellsbæ.

Undirbúningur útboðs er langt kominn, að sögn G. Péturs. Ef samgönguráðherra og fjármálaráðherra taka ákvörðun fljótlega um að ráðast í verkið verði hægt að bjóða það út í mars. Samningar við verktaka yrðu væntanlega gerðir í maí og hægt að hefja framkvæmdir fljótlega upp úr því. Verklok eru áætluð haustið 2011.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir þetta gleðifréttir fyrir Mosfellinga og aðra vegfarendur um Vesturlandsveg. “Það er ánægjulegt að það hafi verið hlustað á okkar rök í málinu sem við höfum verið dugleg að koma á framfæri. Við erum þakklát fyrir skilning Kristjáns Möller samgönguráðherra á málinu,” segir Haraldur.

Hér að neðan má skoða glærukynningu sem Vegagerðin hélt fyrir Mosfellinga í maí í fyrra eða opna sem pdf-skjal hér.

Til baka