Sumaráætlun Strætó tekur gildi 30. maí

28/05/2010

Logo Strætó Líkt og undanfarin ár breytist tíðni strætóferða á níu strætóleiðum í samræmi við minni eftirspurn á sumrin, auk þess sem nokkrar smávægilegar breytingar verða gerðar þegar sumaráætlun Strætó tekur gildi sunnudaginn 30. maí næstkomandi.

Vagnar á leiðum 1, 2, 3, 4, 6, 11, 12, 14 og 15 munu aka á 30 mínútna tíðni í sumar, í stað 15 mínútna. Sú breyting verður jafnframt á leið 18 að ekið verður upp og niður Grensásveg milli Bústaðavegar og Miklubrautar í stað þess að aka allan Bústaðaveginn. Þá mun leið 19 aka frá Nauthól (Háskólanum í Reykjavík) einni mínútu fyrr en áður. Brottfarartími leiðar 51 breytist í fyrstu tveimur ferðunum frá Selfossi, á virkum dögum.
Undanfarið hefur einni ferð verið bætt við á sunnudögum á milli Akraness og Mosfellsbæjar, til reynslu. Ekið er kl. 16:45 frá Háholti og kl. 17:39 frá Akranesi. Þessi ferð hefur nú verið fest í sessi og kemur fram í nýrri leiðabók.

„Eftirspurn eftir þjónustu Strætó er árstíðabundin og á vorin þegar skólastarfi lýkur og sumarfrí eru í nánd dregur umtalsvert úr henni. Við því bregðumst við með fækkun ferða. Þeim verður svo að vanda aftur fjölgað í haust þegar skólarnir byrja og sumarfríum lýkur,“ segir Bergdís I. Eggertsdóttir, yfirmaður þjónustuvers Strætó bs.

Sú breyting verður á leiðarvísinum á Strætó.is frá og með sunnudeginum 30. maí að hægt verður að leita fram í tímann eftir dagsetningu, þ.e. ef athuga þarf með áætlun á tilteknum degi á næstu vikum eða mánuðum er hægt að velja þann dag á dagatali sem birtist á vefnum. Áður var aðeins hægt að velja milli virkra daga, laugardaga eða helgidaga en ekki eftir ákveðnum dagsetningum. 

Nánari upplýsingar um sumaráætlunina er að finna á vefnum www.straeto.is og í síma 540 2700. Nýjar leiðabækur eru fáanlegar á öllum sölustöðum.

Nánari upplýsingar veitir: Bergdís I. Eggertsdóttir, yfirmaður þjónustuvers Strætó bs., í síma 540 2700

Til baka