Skólaakstur gegn gjaldi í Borgarholtsskóla

20/08/2010
BorgarholtsskóliBæjarráð Mosfellsbæjar hefur að tillögu bæjarstjóra tekið ákvörðun um að bjóða nemendum í Mosfellsbæ upp á skólaakstur í Borgarholtsskóla gegn gjaldi á haustönn. Skólaaksturinn verður í tilraunaskyni fram til áramóta og tekin verður ákvörðun um framhaldið í ljósi þess hvernig þátttakan verður.

Á síðasta ári var ákveðið að hætta skólaakstri milli Mosfellsbæjar og Borgarholtsskóla. Ákvörðunin var tekin á eftirfarandi forsendum:

·         Rekstur framhaldsskóla er alfarið á ábyrgð ríkisins og því ber Mosfellsbæ í raun ekki að veita þessa þjónustu. Þegar ákveðið var að bjóða upp á skólaakstur var það gert til að koma til móts við framhaldsskólanemendur í Mosfellsbæ sem þá gátu ekki sótt framhaldsskóla í sínum heimabæ. Ákveðið að þjónustan yrði veitt þangað til framhaldsskóli yrði starfræktur í Mosfellsbæ. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ tók til starfa síðastliðið haust.

·         Framhaldsskólanemendur í Mosfellsbæ sem stunda nám í öðrum skólum sitja ekki við sama borð og nemendur í Borgarholtsskóla. Nemendur í öðrum skólum fá ekki frían, beinan akstur milli heimilis og skóla. Þeir þurfa að nota strætó eða aðrar samgönguleiðir og jafnframt að greiða fyrir það.

Vegna áskorunar frá nemendum og forráðamönnum þeirra ákvað bæjarráð að endurskoða þessa ákvörðun og hefur ákveðið að bjóða upp á áframhaldandi þjónustu við nemendur í Borgarholtsskóla í tilraunaskyni nú á haustönn. Nemendum verði þó gert að greiða fyrir þjónustuna. Mosfellsbær greiðir samt sem áður meginkostnaðinn við þjónustuna.
 
Fyrirkomulag skólaaksturs á haustönn 2010 verður því með eftirfarandi hætti:

·         Akstur samkvæmt tímatöflu síðasta árs. Fyrsta ferð fer mánudaginn 23. ágúst. Síðasta ferð fer síðasta kennsludag, 30. nóvember.
         07:45  Reykjavegur / Hafravatnsvegur (strætisvagnabiðstöð)
         07:49 Þverholt við Kjarna
         07:51 Lágafellsskóli / strætisvagnabiðstöð
         08:00 Borgarholtsskóli

·         Nemendur kaupa sérstök skólastrætókort hjá Þjónustuveri Mosfellsbæjar, 1. hæð, Þverholti 2, Kjarna (við hliðina á Bókasafni).  Verð kr. 12.000, sem er aðeins ódýrara en þriggja mánaða kort hjá Strætó. Kort þessi gilda eingöngu í skólastrætó milli Mosfellsbæjar og Borgarholtsskóla á tímabilinu 1. september til og með 30. nóvember 2010.

·         Frítt er í skólastrætó í ágúst. Nemendur verða að vera komnir með skólastrætókort fyrir 1. september.  Ef færri en 20 nemendur hafa keypt sér kort fyrir 1. september verður ekki unnt að veita þjónustuna og þeir sem hafa keypt kort fá þau endurgreidd. Verðið á kortunum er hið sama út önnina.

·         Ekki verður boðið upp á skólaakstur á próftímabili. Reynsla síðustu ára sýnir að nánast engin nýting er á skólarútu á próftíma.

Kaupa má kort  með því að senda tölvupóst á netfangið mos[hja]mos.is þar sem fram þurfa að koma eftirfarandi upplýsingar: nafn, kennitala, símanúmer. Litmynd þarf að fylgja. Greitt er fyrir kortið í Þjónustuveri þegar það er sótt. Þjónustuverið er opið alla virka daga kl. 8-16.

Allar nánari upplýsingar veitir Þjónustuver Mosfellsbæjar í s. 525 6700.
Til baka