Þakkir fyrir frábæra bæjarhátíð

31/08/2010
Í túninu heimaMosfellsbær vill þakka öllum þeim bæjarbúum sem tóku virkan þátt í bæjarhátíðinni okkar og áttu þátt í því að hún heppnaðist jafnvel og raunin var. Veðrið á föstudag og laugardag var algerlega frábært og var mikið líf um allan bæ. Þúsundir mættu á skemmtilega útitónleika á laugardagskvöldið og var um það talað hve mikil og góð stemmning myndaðist víða um bæinn í götugrillinu.

Skreytingarnar toppuðu allt sem áður hefur sést hér í Mosfellsbæ. Það var nánast sama hvert horft var, alls staðar var hátíðarbragur á húsum og stemmningin í sumum götum var með einsdæmum. Hugmyndaauðgin var botnlaus og gaman að sjá hvað bæjarbúar voru sniðugir í útfærslum sínum í litaþemanu.

Nú er hins vegar komið að því að taka til eftir veisluna og því hvetjum við alla til þess að fara að huga að því að taka niður skreytingar áður en haustlægðirnar fara að skella á. Þá viljum við sérstaklega hvetja fólk sem setti upp skreytingar á almenningssvæðum að taka þær niður sem fyrst.

Bestu þakkir fyrir stórkostlega bæjarhátíð.
Mosfellsbær
Til baka