Jólabærinn Mosfellsbær

08/11/2010
JólamarkaðirTveir jólamarkaðir eru fyrirhugaðir í Mosfellsbæ í ár, innimarkaður á torgi í Kjarna og útimarkaður í Álafosskvos, og mega íbúar því búast við mikilli jólastemmningu í bænum á aðventunni.

Útimarkaðurinn verður haldinn í Álafosskvos á laugardögum og sunnudögum kl. 12-17 í desember og eru umsjónarmenn hans hjónin Guðlaug Daðadóttir og Gunnar Helgason, eigendur Kaffi Álafoss í samvinnu við Jón í Mosskógum. Komið verður upp sölubásum í tjaldi á palli við kaffihúsið og mynduð verður skemmtileg jólastemmning. Á boðstólnum í kaffihúsinu verða veitingar við hæfi sem yljað geta markaðsgestum, svo sem heitt súkkulaði, jólaglögg, piparkökur og margt annað gómsætt og seðjandi og að sjálfsögðu verður jólatónlist í hávegum höfð. Gulla og Gunnar hvetja áhugasama seljendur til að setja sig í samband við Jón í Mosskógum í síma 663 6173.

Innimarkaðurinn verður haldinn á föstudögum torginu í Kjarna - sem mun fá heitið Torg hins himneska friðar á meðan á markaðnum stendur. Þar gefst fólki tækifæri á að setja  upp sölubása án endurgjalds og bjóða varning til sölu. Þjónustuver Mosfellsbæjar mun hafa umsjón með að úthluta leyfum samkvæmt þar til gerðum reglum um markaðinn. Nánari upplýsingar veitir Þjónustuver Mosfellsbæjar í s. 525 6700 eða um netfangið mos[hja]mos.is.

Mosfellsbær sér um kynningu á mörkuðunum en kemur ekki að skipulagningu þeirra að öðru leyti.
Til baka