Starfsfólk Varmárskóla kynnti sér skólastarf í Boston

10/11/2010
Kennarar og starfsfólk Varmárskóla í skólaheimsóknLaugardaginn 23. okt. 2010 lagði 85 manna hópur (kennarar og annað starfsfólk Varmárskóla) land undir fót og hélt til Boston Ma. Tilgangur fararinnar var að kynna sér skólastarf á þessum slóðum. Hér á eftir birtist ferðasaga hópsins:

Fyrstu dagana dvöldum við í bænum Leominster sem er u.þ.b. 50 km. fjarlægð frá Boston. Þaðan fórum við svo í fjórum hópum í skólaheimsóknirnar.  Við Fitchburg State University stunda um 7000 nemendur nám þar af 1100 í grunn- og framhaldsskóla og eru þeir nemendur í æfingadeild fyrir  kennaranám skólans. Við fengum góða leiðsögn um svæðið en á 90 ha. svæði skólans eru 32 byggingar. Hluti hópsins sat svo morgunfund með kennaranemum og fékk að sitja kennslustund með þeim. Hinir skoðuðu þann hluta skólans þar sem yngri börnum grunnskólans er kennt. Að lokum fór svo allur hópurinn í fyrirlestrarsal og fékk kynningu á því hvernig listnámi og bóknámi er fléttað saman á afar skemmtilegan hátt.

Bromfieldskólinn í Harvard er fyrir nemendur í 1. – 12. bekk . Mikil áhersla er einnig  lögð á listnám í þessum skóla. Skólinn er í tveimur byggingum (yngri deild  1. – 5. bekkur og eldri deild 6. – 12. bekkur)  Þarna fengum við kynningu á starfi skólans og líka að fylgjast með nemendum í kennslustundum.                                                          

Í Hildreth Elementary School í Harvard eru nemendur á aldrinum 5 – 10 ára. Í skólanum er áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám. Skemmtilegur skóli í fallegu umhverfi. Sérstaka athygli vakti hve nemendur skólanna voru ófeimnir við að svara spurningum okkar og jafnvel að standa upp og kynna verkefni sín.

Alls staðar var okkur afar vel tekið. T.d. buðu foreldrar og starfsfólk Bromfield skólans öllum hópnum til hádegisverðar á sunnudeginum 24. okt., sóttu okkur á hótelið á einkabílum  og að loknum málsverði var ekið með okkur um bæinn og nágrenni hans.

Á þriðja starfsdegi vorum við komin til Boston og skiptist hópurinn þá í nokkra hópa. Einn þeirra fór í Josiah Quincy Elementary School í Kínahverfi Boston en þar eru 70% barnanna af asískum uppruna, 17% frá S-Ameríku og 11% frá löndum Afríku. Alþjóðlegur leik- og grunnskóli. Aðrir fóru á söfn t.d. Vísindasafnið í Boston og Þjóðmenningarsafnið sem er í einni byggingu Harvardháskólans í Cambridge og nokkrir fóru í skoðunarferð um borgina á farartæki frá síðari heimstyrjöld sem bæði er hægt að aka og sigla. Hópurinn kom svo heim eftir mjög vel heppnaða ferð að morgni 30. okt.

Til baka