Fjöldi óhappa í akstri Strætó bs. í sögulegu lágmarki

30/11/2010

Öryggisdögum Strætó og VÍS lauk formlega í gær, en þeir stóðu yfir í sex vikur, frá 18. október til 28. nóvember. Á þeim tíma var lögð sérstök áhersla á öryggi í akstri Strætó, þar sem strætisvagnabílstjórar hétu því að sýna gott fordæmi í umferðinni og aðrir ökumenn voru hvattir til að huga að akstri sínum með jákvæðum skilaboðum á strætisvögnum og víðar. Markmið átaksins var fyrst og fremst að vekja vegfarendur til umhugsunar um umferðaröryggi en að auki ætluðu strætisvagnabílstjórar að reyna að gera betur í akstri en á sama tímabili í fyrra. Þá urðu 28 óhöpp frá miðjum október fram til nóvemberloka.

Þetta markmið náðist nokkuð örugglega, því einungis urðu 11 óhöpp á þessu sex vikna tímabili sem er framar björtustu vonum. Flest voru óhöppin minniháttar, en alvarlegt slys varð þó á meðan á Öryggidögunum stóð, því ekið var á gangandi vegfaranda síðastliðinn laugardag og hlaut hann innvortis meiðsli. Sýnir það atvik enn og aftur hversu mikilvægt er að strætisvagnabílstjórar og aðrir vegfarendur séu stöðugt á varðbergi og geri sitt besta á hverjum degi til að koma í veg fyrir óhöpp og slys í umferðinni.

Að meðaltali verða um 20 óhöpp í mánuði hjá Strætó bs. yfir vetrarmánuðina og því tókst strætisvagnabílstjórum að halda fjölda óhappa langt undir því sem hefðbundið er á þessum tíma árs á meðan á Öryggisdögunum stóð. Nú er svo komið að allt stefnir í að óhöpp í akstri Strætó bs. verði í sögulegu lágmarki í ár frá því að Strætó bs. hóf að skrá og greina óhöpp og leita markvisst að úrræðum til að fækka þeim. Árið 2006 voru óhöppin 304 en hefur fækkað ár frá ári og voru nú síðast 197 árið 2009. Í ár hefur heildarfjöldi óhappa verið talsvert færri en á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2009, þannig að allt útlit er fyrir að enn betri árangur náist nú.

„Ég harma öll óhöpp og slys í umferðinni og auðvitað eru ellefu óhöpp á þessu tímabili ellefu óhöppum of mikið. En meðan við erum að fækka slysum jafnt og þétt er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því. Ég er fyrst og fremst þakklátur og stoltur af strætisvagnabílstjórunum okkar sem tóku þátt í átakinu af heilum hug og sýndu í verki að það er alltaf hægt að gera betur í umferðinni ef maður leggur sig allan fram. Við vonum að þetta hafi vakið aðra vegfarendur til umhugsunar og við getum öll staðið saman að því að auka öryggi í umferðinni á komandi árum. Um leið vil ég hrósa öllum þeim sem hafa komið að forvarnarstarfi Strætó síðustu árin fyrir árangurinn, starfsfólki Strætó, VÍS og fulltrúum sveitarfélaganna sem hafa unnið með okkur að því að bæta aðstæður á akstursleiðum strætó og fækka áhættupunktum í umferðinni,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

„Strætisvagnabílstjórar hafa sýnt frábært fordæmi, ekki bara síðustu vikurnar heldur síðustu árin, með fækkun slysa um næstum því helming á fimm árum. Þeir hafa sýnt okkur að það er hægt að auka umferðaröryggi umtalsvert með því að huga vel að forvörnum, læra af reynslunni og hafa öryggið ávallt í huga við aksturinn. Öryggisdagarnir sýna okkur þetta svo ekki verður um villst, því með því að leggja allan metnað sinn í að vera góð fyrirmynd í umferðinni tókst strætisvagnabílstjórum að ná árangri langt umfram björtustu vonir. En við vitum að það má alltaf gera betur og nú er það verkefni okkar að gera alla daga að öryggisdögum,“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS.

Nánari upplýsingar veita: Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. í síma 897 3038 og Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, í síma 560 5000.
Myndir: Frá afhendingu viðurkenninga til vagnstjóra Strætó á Hlemmi í dag.

Til baka