Rangt farið með staðreyndir í Pressufrétt um systkinaafslátt

18/01/2011
TvíburarRangt var farið með staðreyndir í frétt sem birt var á vefmiðlinum Pressunni í gær um systkinaafslátt í Mosfellsbæ og hefur verið óskað leiðréttingar á fréttinni. Í henni er því haldið fram að tvíburar njóti ekki sömu þjónustu og önnur systkini í Mosfellsbæ. Þetta er alrangt. Að sjálfsögðu er enginn greinarmunur gerður á tvíburum og öðrum systkinum - og hefur aldrei verið.

Hið rétta er að systkinaafsláttur er veittur vegna daggæslu barna á stofnunum á vegum Mosfellsbæjar, þ.e.a.s. leikskólum og frístundaseli grunnskóla. Afslátturinn gildir óháð skólastigi, þ.e.a.s. foreldrar með börn í leikskóla og frístundaseli fá systkinaafslátt af gjaldi vegna eldra barnsins.

Dagforeldrakerfið er ekki rekið á vegum Mosfellsbæjar en skv. reglum Mosfellsbæjar veitir daggæsla barns hjá dagforeldri rétt á systkinaafslætti á gjaldi barns á leikskóla eða frístundaseli.

Mosfellsbær var fyrsta sveitarfélagið til þess að útvíkka systkinaafsláttinn með þessum hætti, þ.e. að veita systkinaafslátt af gjaldi vegna daggæslu á stofnunum sveitarfélagsins ef systkini er í daggæslu hjá dagforeldri. Í framhaldi af upptöku Mosfellsbæjar á samræmingu á systkinaafslætti 2004, þá tóku nágrannasveitarfélög upp þessa aðferðarfræði.

Málið snýst því ekki um að um tvíbura er að ræða. Hið sama gildir um tvíbura og önnur systkini.

Bæjarráð Mosfellsbæjar fjallaði um þetta mál á þeim forsendum að skoða hvort breyta ætti reglunum um systkinaafslátt þannig að börn hjá dagforeldrum njóti niðurgreiðslu á gjaldi til dagforeldra.
Til baka