Drög að lýðræðisstefnu kynnt íbúum

06/09/2011

Lýðræði

Vinna við drög að lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar hefur staðið yfir í um ár og liggja þau nú fyrir. Óskað er eftir athugasemdum og ábendingum frá íbúum varðandi þau.

Þjóðfélagsumræðan undanfarin misseri hefur í auknum mæli beinst að lýðræðisumbótum hvers konar. Rætt hefur verið um völd og ábyrgð kjörinna fulltrúa og rétt íbúa til að taka þátt í ákvarðanaferlinu og ákvörðunum. Eitt af stefnumálum nær allra flokka í framboði fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarskosningar í Mosfellsbæ var að setja skuli sérstaka lýðræðisstefnu sveitarfélagsins. Í henni yrði m.a. einnig settar reglur um íbúakosningar.

Með virku íbúalýðræði er hægt að ná betri sátt um markmið, stefnu og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins með því að virkja íbúa í ákvörðunartökuferlinu og stefnumótun hvers konar og hvetja þá til að taka þátt í mótun nærumhverfis síns í samvinnu við sveitarfélagið.

Síðastliðið haust var stofnaður starfshópur um lýðræðismál sem í áttu sæti fulltrúar frá öllum framboðum í bæjarstjórn auk formanns sem var bæjarstjóri. Hlutverk starfshópsins var að vinna drög að nýrri lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar og reglum um íbúakosningar í Mosfellsbæ.

Starfshópurinn hefur haldið alls tíu fundi. Fyrstu fundirnir fóru í að fræðast um lýðræði almennt og fara yfir upplýsingar og gögn er varðaði málið. Stofnað var sérstakt svæði á vef Mosfellsbæjar þar sem fundargerðir og öll gögn sem tengjast vinnu nefndarinnar eru birt. Fundargerðir eru jafnframt mjög ítarlegar Þá var stofnað sérstakt netfang til að auðvelda samskipti við fulltrúa lýðræðisnefndar, lydraedisnefnd[hja]mos.is og var hver sá sem hefur áhuga á að setja sig í samband við nefndina, hvattur til að senda nefndarmönnum póst.

Gerð var skoðanakönnun meðal íbúa um hvaða aðferðum best er að beita til að ná betur til íbúa og efla samráð um hin ýmsu málefni og eru niðurstöður hennar birtar á vef Mosfellsbæjar.

Starfshópurinn stóð fyrir fræðslufundi um íbúalýðræði undir yfirskriftinni Íbúalýðræði – hvernig og hvers vegna? þar sem tveir sérfræðingar um íbúalýðræði héldu erindi. Fræðslufundurinn var öllum opinn.

Í framhaldinu var haldinn  vinnufundur 50 íbúa sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Sá fundur fór fram með nokkurs konar þjóðfundarfyrirkomulagi undir stjórn Sævars Kristinssonar, ráðgjafa hjá Netspori. Fundarmenn fjölluðu um íbúalýðræði og skilaði fundurinn niðurstöðum sem starfshópurinn nýtti í gerð lýðræðisstefnu.

Starfsmenn starfshópsins gerðu drög að stefnu í samræmi við þær umræður sem áttu sér stað á fundum hópsins og nýttu til þess hugmyndir íbúa. Starfshópurinn fjallaði ítarlega um drögin og ákvað að þau skyldu lögð fram til kynningar fyrir íbúa sem fengju tækifæri til að segja skoðun sína á þeim.

Í fyrsta lagi skyldu drögin kynnt á vef Mosfellsbæjar þar sem hægt væri að senda inn athugasemdir og ábendingar. Allir þeir íbúar sem þátt tóku í vinnufundinum skyldu fá drögin send og boðið að tjá sig um þau og loks yrði haldinn kynningarfundur um drögin þar sem öllum gæfist tækifæri á að fjalla um þau.  Íbúafundurinn verður haldinn þriðjudaginn 20. september kl. 20 í Bókasafni Mosfellsbæjar.

Nánari upplýsingar um nefndina og stöf hennar má finna á www.mos.is/lydraedisnefnd

Til baka