EVRÓPSK SAMGÖNGUVIKA Í MOSFELLSBÆ 16.-22. SEPTEMBER

15/09/2011

Samgonguvika_2009 092Dagana 16. – 22. september mun Mosfellsbær taka þátt í Evrópsku Samgönguvikunni, European Mobility Week. 

Yfirskrift vikunnar að þessu sinni er „Samgöngur fyrir alla“.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér vistvænni samgöngumáta, eins og almenningssamgöngur og  hjólreiðar. 

Í tilefni samgönguvikunnar verður boðið uppá ýmsa viðburði tengda vistvænum samgöngum bæði í Mosfellsbæ og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. 
Meðal þess sem verður í boði er málþing um vistvænar samgöngur „Hjólum til framtíðar“, sem haldið verður í Iðnó föstudaginn 16. september og fjölskylduhátíð Strætó bs. sem haldin verður í höfuðstöðvum þess að Hesthálsi laugardaginn 17. september, þar sem ýmis leiktæki verða í boði fyrir börnin.

Mosfellsbær mun í tilefni vikunnar einnig vekja athygli á göngu- og hjólastígakortum bæjarins og gera þau aðgengileg á heimasíðu bæjarins og á helstu stöðum í bænum s.s. á bókasafni Mosfellsbæjar og íþróttamiðstöðvum við Varmá og Lágafell.

Skólarnir í Mosfellsbæ eru einnig hvattir til að taka virkan þátt í samgönguvikunni, og eru foreldrar jafnt sem starfsfólk þeirra hvatt til að skilja bílinn eftir heima á Bíllausa deginum sem haldinn er fimmtudaginn 22. september.

Frekari upplýsingar um Evrópsku Samgönguvikuna má finna á www.mos.is/samgonguvika og á heimasíðu verkefnisins, http://www.samgonguvika.is/ þar sem einnig er hægt að vinna til veglegra verðlauna í getraunaleik.

 

Tómas G. Gíslason
umhverfisstjóri

 

Til baka