Íbúafundur um drög að lýðræðisstefnu í kvöld, þriðjudag kl. 20

19/09/2011

LýðræðiÍbúafundur um drög að lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar verður haldinn í Bókasafni Mosfellsbæjar í kvöld, þriðjudaginn 20. september kl. 20. Þar verða drög stefnunnar kynnt og fundargestum gefst tækifæri til að ræða þau og spyrja spurninga. Nálgast má drög stefnunnar á slóðinni www.mos.is/lydraedisnefnd/drog. Hægra megin á síðunni er innfyllingarform fyrir ábendingar og athugasemdir um drögin.

Síðastliðið haust var stofnaður starfshópur um lýðræðismál sem í áttu sæti fulltrúar frá öllum framboðum í bæjarstjórn auk formanns sem var bæjarstjóri. Hlutverk starfshópsins var að vinna drög að nýrri lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar og reglum um íbúakosningar í Mosfellsbæ. Gerð var skoðanakönnun meðal íbúa um hvaða aðferðum best er að beita til að ná betur til íbúa og efla samráð um hin ýmsu málefni og eru niðurstöður hennar birtar á vef Mosfellsbæjar. Starfshópurinn stóð fyrir fræðslufundi um íbúalýðræði undir yfirskriftinni Íbúalýðræði – hvernig og hvers vegna? þar sem tveir sérfræðingar um íbúalýðræði héldu erindi. Fræðslufundurinn var öllum opinn. Í framhaldinu var haldinn  vinnufundur 50 íbúa sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Sá fundur fór fram með nokkurs konar þjóðfundarfyrirkomulagi undir stjórn Sævars Kristinssonar, ráðgjafa hjá Netspori. Fundarmenn fjölluðu um íbúalýðræði og skilaði fundurinn niðurstöðum sem starfshópurinn nýtti í gerð lýðræðisstefnu.

Starfsmenn starfshópsins gerðu drög að stefnu í samræmi við þær umræður sem áttu sér stað á fundum hópsins og nýttu til þess hugmyndir íbúa. Starfshópurinn fjallaði ítarlega um drögin og ákvað að þau skyldu lögð fram til kynningar fyrir íbúa sem fengju tækifæri til að segja skoðun sína á þeim.

Í fyrsta lagi skyldu drögin kynnt á vef Mosfellsbæjar þar sem hægt væri að senda inn athugasemdir og ábendingar. Allir þeir íbúar sem þátt tóku í vinnufundinum skyldu fá drögin send og boðið að tjá sig um þau og loks yrði haldinn kynningarfundur um drögin þar sem öllum gæfist tækifæri á að fjalla um þau.  Íbúafundurinn verður haldinn þriðjudaginn 20. september kl. 20 í Bókasafni Mosfellsbæjar.

Nánari upplýsingar um nefndina og stöf hennar má finna á www.mos.is/lydraedisnefnd

Til baka