Leikskólabörn færa Strætó í jólabúning

14/12/2011

Hulduberg_2Börnin á leikskólanum Huldubergi í Mosfellsbæ fengu óvænta heimsókn í dag, þegar jólasveinar komu til þeirra í strætó og fengu þau til að hjálpa sér að skreyta vagninn að innan. Spennan var mikil meðal barnanna þegar vagninn renndi í hlað og hámarki náði jólastemmningin þegar þeim var boðið í stuttan leiðangur um hverfið með strætó, þar sem að sjálfsögðu voru sungin jólalög.
Það verður sem sagt jólalegt í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu næstu vikurnar, því strætisvagnar Strætó bs. munu skarta litríkum jólamyndum að utan og innan.

Listamennirnir eru ungir og upprennandi, leikskólabörn hvaðanæva að af höfuðborgarsvæðinu.

Hulduberg_3Með þessu verkefni vill Strætó leggja sitt af mörkum til að færa sitt nánasta umhverfi í hátíðarbúning um leið og ungviðið er hvatt til að virkja sköpunargleðina.

Verkefnið hófst í byrjun nóvember, þegar bréf var sent til allra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og leikskólakennarar hvattir til fá eldri börnin, 4-6 ára, til að teikna jólamyndir til að skreyta strætisvagnana á aðventu og jólum. Undirtektir voru afar góðar og alls bárust 1642 myndir frá 60 leikskólum. Valin var af handahófi ein mynd frá hverjum leikskóla og þær settar saman til að prýða vagnana að utan. Jafnframt eru myndirnar aðgengilegar á vefnum Strætó.is.

Hulduberg_4Fleiri leikskólar fá strætóheimsókn á næstunni, einn úr hverju sveitarfélagi sem stendur að Strætó bs., en þeir voru dregnir út úr hópi þeirra sem sendu inn teikningar. Börnunum þar verður sömuleiðis boðið að skreyta vagn að innan og fara svo í strætóferð.
 „Það skortir ekkert á hugmyndaflugið hjá börnunum, eins og sjá má af þessum líflegu og skemmtilegu myndum. Ég á von á því að þetta uppátæki gleðji strætófarþega og aðra vegfarendur og komi þeim í hátíðarskap,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Nánari upplýsingar veitir: Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. í síma 897 3038.

 Reykjavík, 14. desember 2011

Til baka