Framkvæmdir við göngu- og hjólreiðastíg

18/01/2012

Samgonguvika_2009 097Nú standa yfir framkvæmdir við göngu- og hjólreiðastíg meðfram Vesturlandsvegi.  Vinnuvélar eru nú að störfum á horni Vesturlandsvegar og Skarhólabrautar við Hlíðartúnshverfi þar sem unnið er að fyrsta hluta stígsins.
Um er að ræða samgöngustíg sem tengja mun núverandi stígakerfi í Mosfellsbæ við stígakerfi Reykjavíkur.  Möguleikar hjólreiðamanna að komast beina leið milli sveitarfélaganna verða því betri en verið hefur.
Nýi hjóla- og göngustígurinn mun liggja sunnan og austan Vesturlandsvegar frá Hlíðartúnshverfi í Mosfellsbæ, gegnum skógræktarsvæði Mosfellinga við Hamrahlíð, og fyrirhugað að hann tengist stígum í Úlfarsfellshverfi í Reykjavík við byggingu Bauhaus.   Stígurinn mun opna fyrir betri möguleika á að nota reiðhjól sem samgöngumáta fyrir þá sem vilja komast sem greiðast milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.   Auk þess mun gerð stígsins auka aðgengi Mosfellinga að skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð til muna.
Stígurinn verður hannaður meðal annars með hliðsjón af þörfum hjólreiðamanna og verður um 3 metra breiður og um 2.7 km á lengd.
Stefnt er að því að fyrri hluti stígsins sem nær að skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð verði tilbúinn sumarið 2012 og að hann verði fullkláraður sumarið 2013.
Vonast er til að gerð samgöngustígs meðfram Vesturlandsvegi muni gera Mosfellingum og öðrum kleift að nýta sér reiðhjól meira sem samgöngumáta milli sveitarfélaganna og auka þannig áherslur á vistvænar samgöngur í sveitarfélögunum. Eins og sjá má á meðfylgjandi yfirlitsmynd mun stígurinn liggja meðfram Vesturlandsvegi og í jaðri Litlaskógar. Stígurinn liggur síðan áfram að Hamrahlíðarskógi en þar mun stígurinn liggja inn í skóginn.

 

Til baka