Lífshlaupið á dagskrá

26/01/2012

Lifshlaupid_logoHið árlega lýðheilsuátak „Lífshlaupið“  fer nú fram dagana 1.-21. febrúar. Um er að ræða fræðslu- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa og eru allir hvattir til að taka þátt. Tilgangur verkefnisins er að hvetja landsmenn til að stunda daglega hreyfingu, hvort sem er í skipulagða líkamsrækt, skokk, sund, hjólreiðar, rösklega göngu eða aðra krefjandi hreyfingu.

Boðið er uppá þrjár leiðir til að taka þátt:
 Vinnustaðakeppni milli fyrirtækja og stofnana
 Hvatningaverkefni fyrir grunnskóla
 Einstaklingskeppni þar sem þátttakendur skrá sína daglegu hreyfingu allt árið.

Rannsóknir sýna að aukin hreyfing og útivera skilar sér almennt í betri líðan og heilsu, auk þess sem hún er yfirleitt hin besta skemmtun og hluti að lífstíl sem fleiri og fleiri taka þátt í.   Ekki er nauðsynlegt að stunda skipulagða líkamsrækt, heldur ættu allir að geta fundið sér hreyfingu við sitt hæfi, s.s. við útivist eða bara að ganga til og frá vinnu. Mosfellsbær hefur tekið þátt í átakinu undanfarin ár með mjög góðum árangri og lenti í 13. sæti af 66 sveitarfélögum sem tóku þátt á síðasta ári.
Bæjarskrifstofa Mosfellsbæjar hefur sigrað í sínum flokki í vinnustaðakeppninni undanfarin tvö ár, grunnskólarnir í bænum hafa einnig staðið sig með stakri prýði í Hvatningaverkefni grunnskólanna, þar sem Varmárskóli lenti í þriðja sæti í sínum flokki í fyrra og Lágafellsskóli hreppti fimmta sætið.  Starfsmenn stofnana og fyrirtækja í bænum hafa einnig tekið þátt í keppninni með góðum árangri. Það er því ljóst að Mosfellingar eru vel með á nótunum þegar kemur að því að hreyfa sig.

Íbúar, fyrirtæki og stofnanir í Mosfellsbæ eru hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.  Í skammdeginu getur oft verið erfitt að rífa sig upp úr sófanum og þægindum heimilisins, en nú er lag að nýta sér tækifærið, reima á sig gönguskóna og halda af stað í holla og góða hreyfingu í skemmtilegri keppni.
Góða skemmtun!

Nánari upplýsingar má finna á vefnum www.lifshlaupid.is

Til baka