Kynningarfundur um aðalskipulag í Hlégarði.

06/05/2012

Mos_AS_augl-minni

Nú í fyrstu og annarri viku maí gengst Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar fyrir kynningu á tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi bæjarins. Vinna við endurskoðunina hófst á síðasta kjörtímabili og er stefnt að því að henni ljúki með endanlegri samþykkt skipulagsins síðar á þessu ári. Núgildandi aðalskipulag var samþykkt árið 2003 með gildistíma til 2024, en endurskoðuðu skipulagi er ætlað að gilda til 2030.

Kynningin nú í maí er tvíþætt: Í fyrsta lagi var opið hús í Krikaskóla 3. maí, og í öðru lagi verður almennur kynningarfundur í Hlégarði þriðjudaginn 8. maí kl. 17. Á þeim fundi munu Bryndís Haraldsdóttir formaður skipulagsnefndar og Gylfi Guðjónsson skipulagsráðgjafi flytja framsöguerindi, en síðan verða fyrirspurnir og almennar umræður. Fundarstjóri verður Ólafur Gunnarsson, varaformaður skipulagsnefndar.

Um er að ræða lögbundna forkynningu á tillögunni fyrir íbúum og umsagnaraðilum, þ.á.m. nágrannasveitarfélögum. Að forkynningu lokinni mun bæjarstjórn síðan taka tillöguna til afgreiðslu og samþykkja hana til formlegrar auglýsingar samkvæmt skipulagslögum - eftir atvikum með einhverjum breytingum í ljósi þess sem fram kann að koma í tengslum við forkynninguna.

Helstu nýmæli

Á meðal helstu nýmæla í tillögunni miðað við gildandi skipulag má nefna breytta stefnumörkun varðandi útfærslu Vesturlandsvegar og gatnamóta við hann með tilliti til „sambúðar vegar og byggðar,“ nánari skilgreiningar og skilmála um hverfisverndarsvæði, um frístundabyggð og stök sumarhús í bæjarlandinu og um blandaða byggð í Mosfellsdal, svo og tillögu um nýtt svæði fyrir hesthús og hestaíþróttir í landi Hrísbrúar.

Í stefnumörkun sem fram kemur í greinargerð tillögunnar er lögð megináhersla á það markmið „að í Mosfellsbæ fái að þróast fjölbreytt byggð í góðum tengslum við umhverfið og opin svæði, bæði mótuð útivistarsvæði og ósnortna náttúru, þannig að ímynd bæjarins sem útivistarbæjar verði viðhaldið.“ Þar segir ennfremur að „leggja skuli áherslu á sérstöðu og sjálfstæði Mosfellsbæjar en einnig á stöðu hans og hlutverk í samfelldri byggð höfuðborgarsvæðisins.“

Byggt á mannfjöldaspá svæðisskipulags

Í tillögunni er í aðalatriðum byggt á mannfjöldaspá svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, en hún gerir ráð fyrir að íbúar bæjarins, sem voru tæp 9.000 um síðustu áramót, verði tæp 14.000 árið 2024 og skv. framreikningi tæp 17.000 árið 2030. Þar sem nýbyggingarsvæðin, sem fyrir hendi eru í gildandi aðalskipulagi, geta rúmað þessa fjölgun og vel það, eru ekki skilgreind ný slík svæði í tillögunni, ef frá er talin lítilsháttar stækkun á íbúðarsvæði sunnan Lágafells. Á fyrrihluta skipulagstímabilsins verði lokið við uppbyggingu í Krikahverfi, Leirvogstungu og Helgafellslandi og bygging íbúða hafin á miðbæjarsvæði. Næstu byggingaráfangar verði síðan í Blikastaðalandi og í Lágafellslandi og verði röð þeirra ákveðin í framkvæmdaáætlunum bæjarins.

Mosfellingar eru hvattir til að fjölmenna á kynningarnar í Krikaskóla 3. maí og Hlégarði 8. maí, til að skyggnast inn í framtíð bæjarins og og taka þátt í að móta hana. Vakin er athygli á því að hægt er að skoða tillöguna hér á heimasíðunni (sjá tengla hér að neðan), þannig að áhugasamir geta kynnt sér hana fyrirfram og undirbúið sig þannig áður en þeir koma á kynninguna.

(Þar sem aðalskipulagið er í vinnslu taka skipulagsgögnin stöðugum breytingum, en eftirfarandi eru tenglar á nýjustu útgáfur þeirra):

Þéttbýlisuppdráttur(drög 2.5.2012) - pdf, 3,4 MB
Sveitarfélagsuppdráttur(drög 2.5.2012) - pdf, 7,5 MB
Greinargerð og umhverfisskýrsla (drög 2.5.2012) - pdf 3,3 MB

Eldri gögn:

Áfangaskýrsla 1: Forsendur
Áfangaskýrsla 2: Stefna
Áfangaskýrsla 3: Matslýsing
Áfangaskýrsla 4: Verkefnislýsing skv. 30. gr.

Hér á vefnum er einnig að finna efni um gildandi aðalskipulag 2002 - 2024 og um fyrri skref í endurskoðun aðalskipulagsins.

Til baka