Laust er til umsóknar starf forstöðumanns þjónustu- og upplýsingamála hjá Mosfellsbæ

15/05/2012

afmælislogoHefur þú framúrskarandi samskiptahæfni?
Færðu góðar hugmyndir og kemur hlutunum í verk?

Þá er þetta starfið fyrir þig!

Forstöðumaður þjónustu- og upplýsingamála hjá Mosfellsbæ

Helstu verkefni:
Forstöðumaður þjónustu- og upplýsingamála hefur yfirumsjón með starfsemi þjónustuvers og sér um upplýsingamiðlun ásamt því að annast samskipti við fjölmiðla. Hann er ritsstjóri á vef bæjarins www.mos.is og hefur með höndum gerð og útgáfu kynningarefnis auk þess að sjá um tilfallandi textagerð. Hann tekur ennfremur þátt í stefnumótunarvinnu sem varðar málaflokkinn.

Forstöðumaður þjónustu- og upplýsingamála er staðsettur á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar og heyrir undir bæjarstjóra. Bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar eru staðsettar í Kjarna að Þverholti 2 og þar starfa að jafnaði um 40 manns.

Menntunar- og hæfnikröfur eru meðal annars:

•    Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði
•    Góð íslenskukunnátta og færni í textagerð og tjáningu er skilyrði
•    Leiðtogahæfni og framúrskarandi samskiptafærni áskilin
•    Rík þjónustulund, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
•    Framúrskarandi tölvukunnátta
•    Reynsla af vinnu við vefumsjónarkerfi æskileg
•    Reynsla af sambærilegu starfi er kostur

Framtíðarsýn Mosfellsbæjar:
Mosfellsbær er eftirsótt bæjarfélag til búsetu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Mosfellsbær er framsækið samfélag þar sem ábyrgðarkennd ríkir gagnvart náttúru og umhverfi auk þess sem hagkvæmni í rekstri og samfélagsleg ábyrgð eru ávallt höfð að leiðarljósi. Stjórnsýsla og þjónusta Mosfellsbæjar eru skilvirk, ábyrg, vönduð og í fremstu röð á Íslandi. Mosfellsbær er eftirsóknarverður vinnustaður hæfra einstaklinga þar sem áhersla er lögð á persónulega og nútímalega þjónustu.

Umsóknarfrestur er til 21. maí 2012.

Umsóknir um starfið ásamt ferilskrá og rökstuðningi fyrir hæfni í starfið skulu sendar á netfangið sigriduri [hjá] mos.is.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri, í síma 525 6700.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélaga BHM.

Við hvetjum konur jafnt sem karla til að sækja um starfið.


Virðing – jákvæðni – framsækni - umhyggja

Til baka