Einstök opnun í Listasal Mosfellsbæjar laugardaginn 19.05

18/05/2012

bibi

Þér er boðið á einstaka opnun í Listasal Mosfellsbæjar á morgun, laugardaginn 19. maí kl. 14.00


Ingibjörg Helga Ágústsdóttir
opnar sýninguna
MÁL ER AÐ MÆLA

Ingibjörg lærði fatahönnun í London og Kaupmannahöfn, en áhugi hennar á íslensku handverki vaknar fyrir alvöru við rannsóknarvinnu í tengslum við íslenska faldbúninginn. Í verkum sínum sem hún vinnur aðallega í linditré notast hún við liti, munstur og ýmislegt annað úr búningahefðinni ásamt þjóðsögum og þjóðtrú sem hún heyrði gjarnan í æsku.

Allt samankomið verða þessi verk nokkurskonar "ævintýrabox" sem eru ekki aðeins þrívíð myndverk heldur draga áhorfandann inn í söguna á bak við verkið og halda á lofti hluta af menningararfleið okkar sem enn á við í dag.

Þessi sýning er unnin í samstarfi við Bókasafn og Listasal Mosfellsbæjar.
Ingibjörg valdi verk sín að þessu sinni með tilliti til salarins.

Verkin eru undir áhrifum þjóðsagna og bókverka sem tengja sýninguna við bókasafnið.
Sýningin er lokasýning í sérstaklega skipulögðum þríleik í Listasal Mosfellsbæjar þar sem stílað er inn á að hafa sýningar fyrir alla aldurshópa.

Á undan voru sýningarnar Úlfur Úlfur, samsýning 7 ungra grasrótarlistamanna sem var sérstaklega uppsett fyrir börn, og  sýningin Huxi þar sem Hugleikur Dagsson og Örn Tönsberg sýndu "grafíti"verk og teiknimyndir sem höfðuðu aðallega til unglinga.
Þessi sýning nær til allra aldurshópa en telst þó aðallega höfða til aldurshóps fullorðinna í þessum tilraunakennda sýningarþríleik á núverandi sýningarári.

Til baka