Lag Gretu Salóme komst áfram í Evróvisjónkeppninni

21/05/2012

Glaður hópur Íslendinga í kristalshöllinni í Bakú í kvöld. www.eurovision.tv/Andres Putting (EBU) (mynd af www.mbl.is)Mikil hamingja braust út þegar tilkynnt var að framlag Íslands í Evróvisjónkeppninni, lagið Never Forget eftir Mosfellinginn Gretu Salóme Stefánsdóttur, hefði komist áfram  í aðalkeppnina á laugardaginn. Flutningur Gretu Salóme og Jónsa þótti einstaklega glæsilegur og var þeim fagnað með flugeldasýningu og gríðarlegum fagnaðarlátum að keppninni lokinni.
Eins og meðfylgjandi myndir sýna brutust út mikil fagnaðarlæti hjá íslensku flytjendunum í Kristalshöllinni í Bakú í Aserbaídsjan. „Það var rosa gaman að flytja lagið. Mér líður svo vel, nú er takmarkinu náð og allt sem gerist á eftir þessu er bara bónus,“ sagði Greta Salóme.  „Ég er mjög fegin að Íslendingar geta haldið grillpartí á laugardaginn.“

Lagið var eitt þeirra tíu laga sem komust áfram í aðalkeppnina á laugardaginn, en alls kepptu 18 lög í undanúrslitunum í gærkvöldi.  Síðari undanúrslitin verða annað kvöld, þá komast einnig tíu lög áfram og síðan bætast við sex lög sem ekki þurfa að keppa í undanúrslitunum.  Nú taka við stífar æfingar hjá íslenska hópnum fram á laugardag þegar stóra stundin rennur upp. Framlag Íslands í Evróvisjón 2012, Never Forget í flutningi Gretu Salóme og Jónsa verður eitt af þeim 26 lögum sem keppa í aðalkeppninni á laugardaginn en Ísland verður sjöunda landið á sviðið. Þetta er í 25. skiptið sem Ísland tekur þátt í keppninni og nú er bara spurning hvort Eurovision verði haldið í Mosfellsbæ að ári?

Til baka