Skálatún og Mosfellsbær undirrita þjónustusamning

23/05/2012

Gunnar Þorláksson og Haraldur Sverrisson„Skálatún er rótgróinn hluti af bæjarfélaginu“ - FRÉTTATILKYNNING -  11. maí 2012

Undirritaður hefur verið samningur milli Skálatúnsheimilisins og Mosfellsbæjar um þjónustu við fatlaða íbúa heimilisins á árunum 2012-2014. Þeir sem eiga heimili í Skálatúni eru að sjálfsögðu íbúar Mosfellsbæjar og í framhaldi af tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 kemur það nú í fyrsta sinn í hlut bæjarins að gera slíkan samning. Áður giltu samningar við ríkisvaldið.

Greiðslur Mosfellsbæjar til Skálatúns á samningstímanum nema um 403 milljónum króna á ári. Það fé kemur að mestu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en til sjóðsins rennur á móti meginhluti þeirra hækkunar á útsvari landsmanna sem um var samið við tilfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna.

Samninginn undirrituðu Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Gunnar Þorláksson framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins.

Haraldur sagði af þessu tilefni: „Það er mér sérstakt ánægjuefni að undirrita þennan samning. Skálatún er rótgróinn hluti af bæjarfélaginu og ég hef átt afar góð samskipti við bæði íbúa og starfsfólk alveg frá barnsaldri, enda var bernskuheimili mitt nánast þar í túnfætinum. Þessi samningur er enn frekari staðfesting á þeim farsælu tengslum sem ætíð hafa ríkt milli heimilisins og sveitarinnar okkar. Þess má einnig geta að þetta er einhver stærsti samningur sem Mosfellsbær hefur gert, í fjármunum talið.“

Gunnar Þorláksson lagði áherslu á þá sátt og samlyndi sem ríkt hefði í því aukna samstarfi við Mosfellsbæ sem hófst við tilfærslu þjónustunnar til sveitarfélaga á s.l. ári. Sá andi hefði einnig einkennt alla samningsgerðina; þar hefði hvorki heyrst þras né þref, heldur málinu þokað áfram með rólyndi og gagnkvæmu trausti. Því ríkti bjartsýni gagnvart áframhaldandi samvinnu milli Skálatúnsheimilisins og Mosfellsbæjar á komandi árum.

Skálatúnsheimilið var stofnað af Stórstúku Íslands 1954 og hét upphaflega Barnaheimili Templara við Skálatún. Styrktarfélag vangefinna gerðist fljótlega einnig eignar- og rekstraraðili. Heimilið er sjálfseignarstofnun og samanstendur nú af sex sambýlum, vinnustofum, dagþjónustu og sundlaug. Íbúar eru nú 38. 

Myndatexti: Gunnar Þorláksson framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins (t.v.) og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar

Nánari upplýsingar gefur Ásgeir Sigurgestsson verkefnastjóri á fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, s. 525 6700 og 821 7924.

Sjá nánar: www.mos.is

Til baka