Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2013-2016 samþykkt

22/11/2012

Merki MosfellsbæjarFjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2013 var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt í bæjarstjórn í gær 21.nóvember. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðunnar sem nemur rúmlega 33 mkr.

Megináherslur í fjárhagsáætlun 2013 eru hér eftir sem hingað til að standa vörð um þá grunn- og velferðarþjónustu sem veitt er af stofnunum bæjarins. Í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2013 er verið að leggja meiri fjármuni í þjónustuna en nemur verðlagshækkunum sem vonandi verður til þess að bæta þjónustu við íbúa enn frekar.

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn hefur staðist álag undanfarinna ára. Hófleg en stöðug íbúafjölgun hefur verið undanfarin ár þrátt fyrir erfitt árferði og sýnir það styrk og vinsældir sveitarfélagsins. Afar mikilvægt er að sýna áfram ábyrgð í rekstri nú þegar bærinn fer að skila jákvæðri rekstrarafkomu eins og stefnt hefur verið að. Allir stjórnendur sviða og stofnana hafa lagt sitt af mörkum til að koma Mosfellsbæ í gegnum þær miklu efnahagsþrengingar sem hafa dunið á landsmönnum öllum síðustu ár. Sú vinna er að skila sér og sést í metnaðarfullri fjárhagsáætlun þar sem stefnt er að því að skila rekstrarhagnaði á næsta ári.

Bætt þjónusta við unga sem aldna

Uppbygging á sér stað í Mosfellsbæ og gert er ráð fyrir að fjórar stórar byggingarframkvæmdir verði í gangi á árinu 2013.  Bygging hjúkrunarheimilis sem gert er ráð fyrir að tekin verði í notkun á árinu. Þjónustumiðstöð fyrir aldraða á Hlaðhömrum verður einnig tekin í notkun og mun hún hafa mikil áhrif á félagsstarf aldraðra á bænum. Bygging framhaldskóla í samvinnu við ríkið er í fullum gangi og gert er ráð fyrir að skólinn verð tekinn í notkun í janúar 2014. Ákveðið var á árinu að ráðast í byggingu á nýjum íþróttasal við Varmá sem hýsa mun aðstöðu fyrir fimleika og bardagaíþróttir. Sú framkvæmd mun fara af stað á nýju ári. Óhætt er að fullyrða að aðstaða fyrir framhaldskólanema, eldra fólk og bætt aðstaða til íþróttaiðkunar barna og unglinga, mun nýtast flestum heimilum í Mosfellsbæ á einn eða annan hátt.

Til baka