Mosfellsbær lækkar lóðaverð og býður fjármögnun

28/11/2012

Mosfellsbær lækkar lóðaverð og býður fjármögnunÁ blaðamannafundi í dag, fimmtudaginn 28.nóvember, kynnti Haraldur Sverrisson bæjarstjóri átak í sölu atvinnulóða í Mosfellsbæ. Á fundinum kynnti Teitur Gústafsson innkaupastjóri hjá Ístak einnig lóðir á Tungumelum sem Ístak hefur til sölu. Við þetta tilefni lýsti Teitur yfir ánægju starfsfólks Ístaks er með veru sína hérna í bænum en eins og flestum er kunnugt þá flutti Ístak höfuðstöðvar sínar í Mosfellsbæ fyrr á árinu.

Á fundinum kom fram að Mosfellsbær býður upp á góðar samgönguleiðir og staðsetningu með tilliti til höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Fyrir fyrirtæki í rekstri getur vegalengd milli höfuðstöðva og hafnar skipt miklu máli og þá státar Mosfellsbær bæði af samaburðarhæfum vegalengdum og greiðfærum vegi sem liggur ekki, nema að litlu leyti, í gegnum íbúðabyggð.

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að nýta sér heimildir til að lækka gatnagerðargjöld og fella niður byggingarréttagjöld á lóðum undir atvinnuhúsnæði. Með þessu vill Mosfellsbær hvetja fyrirtæki og atvinnurekendur til  fjárfestinga og stuðla að því að bærinn verði fyrsti valkostur þeirra sem eru með  uppbyggingu í huga. Bærinn mun einnig bjóða upp á fjármögnun vegna lóðanna og sanngjarna skilmála. Þetta er í fyrsta skipti sem Mosfellsbær býður upp á slík kjör.

„Það er von okkar að með því að koma á móts við atvinnurekendur og fjárfesta með þessum hætti muni hjól atvinnulífsins fara að snúast og að áframhaldandi uppbygging í bænum komi íbúum Mosfellsbæjar til góða,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Lóðirnar sem um ræðir eru annars vegar við Sunnukrika sem er nýtt svæði undir atvinnustarfsemi í hjarta Mosfellsbæjar og liggur við Vesturlandsveg. Hins vegar á athafnasvæði við Desjamýri í útjaðri bæjarins næst höfuðborginni.

_____________________________________________________________

BYGGINGARLÓÐIR:

*  Hér má lesa nánar um lausar lóðir í Mosfellsbæ,  verð, stærð lóða og nálgast deiliskipulagsgögn, lóða og mæliblöð og önnur gögn vegna umsókna um lóðir, hvort sem um er að ræða atvinnulóðir eða íbúðalóðir.

*   Hér má lesa FRÉTTATILKYNNINGU - Áskorun til uppbyggingar

Til baka