Opnun sýningar,,VÆTTIR OG VÆNTUMÞYKJUFÓLK" í Listasal Mosfellsbæjar

08/05/2013

Vættir og væntumþykjufólkSteinunn Marteinsdóttir mun opna sýningu sína ,,VÆTTIR OG VÆNTUMÞYKJUFÓLK" í Listasal Mosfellsbæjar næstkomandi laugardag

Laugardaginn 11. maí kl 14.00 mun Steinunn Marteinsdóttir opna sýningu sína VÆTTIR OG VÆNTUMÞYKJUFÓLK í Listasal Mosfellsbæjar. Sýningin stendur til 7. júní og er opin á afgreiðslutíma Bókasafnsins. Nánari upplýsingar er að finna á www.bokmos.is

Í kjölfar opnunarinnar í Listasalnum opnar Steinunn einnig sýningu kl. 15.00 á vinnustofu sinni að Hulduhólum.

Nokkur orð frá Steinunni:

"Verið velkomin að sjá sýningu mína VÆTTIR OG VÆNTUMÞYKJUFÓLK sem opnuð verður laugardaginn 11. maí kl. 14 í Listasal Mosfellsbæjar og kl. 15 á Hulduhólum."

Sýningin stendur til 7. júni í Listasal og til 8. júní á Hulduhólum

Opið er í Listasal Mosfellsbæjar mánudaga – föstudaga kl 12-18 og á laugardögum frá kl 12-15.
Lokað laugardaginn 8. júní
Opið er á Hulduhólum fimmtudaga - laugardaga kl 14-18
LOKAÐ Á SUNNUDÖGUM

Steinunn Marteinsdóttir


Um Steinunni:

Eftir nám í myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Hochschule für Bildende Künste í Berlín á árunum 1956-1960 vann Steinunn eitt ár hjá Ragnari Kjartansyni í Glit áður en hún stofnaði eigið keramikverkstæði, fyrst í Reykjavík. Frá 1969 hefur Steinunn búið og starfað að list sinni á Hulduhólum í Mosfellsbæ. Hún hefur fengist við leirlist og kennslu, og staðið fyrir sýningum í húsi sínu á eigin verkum og annarra. Á síðari árum hefur Steinunn æ meira fengist við málverk, án þess þó að leggja leirverkið alveg á hilluna, en hjá henni á sér ætíð stað samspil milli þessara greina myndlistar.

Steinunn hefur haldið á annan tug einkasýninga á Kjarvalsstöðum, í Listasal Mosfellsbæjar, Listasafni Reykjanesbæjar og víðar og tekið þátt í fjölda samsýninga á vegum opinberra aðila utanlands og innan.  (Nánari upplýsingar eru á heimsíðunni www.hulduholar.com)

Í verkunum hefur Steinunn gjarnan horft til fjalla og fugla, mýra og móa en inn í söng og rúnir náttúrunnar hefur hún gjarnan ofið óræðu lífi vætta sem eru ef til vill ættaðar úr þjóðtrú og þjóðararfi. Í nýjustu verkunum gætir persónulegri stefja en áður. Þar vilja nú fá að birtast endurminningar sem bregða á sig blæ fjarlægðar og erfitt er að höndla, minningar um staði og stundir æskunnar, um kært fólk úr fortíð og nútíð. Eða eins og segir í kvæði Gríms Thomsens : „Svipþyrping sækir þing í sinnis hljóðri borg“.

Til baka