Óvissu eytt um Helgafellsland

17/05/2013

Óvissu eytt um HelgafellslandMosfellsbær og Landsbankinn hafa undirritað samkomulag um áframhaldandi uppbyggingu í Helgafellslandi en Landsbankinn hefur nýverið eignast lóðir og lendur í hverfinu vegna uppgjörs við Helgafellsbyggingar hf. Þar með lýkur nokkurra ára stöðnun og  óvissu um áframhaldandi uppbyggingu í hverfinu. 

Samkvæmt samkomulaginu mun Mosfellsbær meðal annars annast gatnaframkvæmdir, gerð göngustíga og frágang á svæðinu. Mosfellsbær mun einnig koma upp grunnþjónustu en þess má geta að fræðslunefnd hefur nýverið samþykkt að undirbúningur skuli hafin á skólabyggingu á svæðinu en þar er bæði gert ráð fyrir leik- og grunnskóla. Landsbankinn lætur Mosfellsbæ í té land undir íbúðabyggð í Helgafelli og stendur straum af gatnagerðargjöldum. 

Í Helgafellslandi er gert ráð fyrir um 1000 íbúða blandaðri byggð fjölbýlis- og sérbýlishúsa. Hverfið er staðsett á einum fallegasta stað í Mosfellsbæ, við rætur Helgafells, og er án efa eitt glæsilegasta byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu.  Því er það fagnaðarefni fyrir íbúa Mosfellsbæjar að skriður skuli komast  á uppbyggingu í hverfinu á ný. 

Eftirspurn eftir íbúðum í Mosfellsbæ hefur verið töluverð að undanförnu og því má búast við því að byggingarframkvæmdir hefjist þar fljótlega. Gera má ráð fyrir að í hverfinu verði eitthvað um minni íbúðir sem henta vel fyrir ungar fjölskyldur. Bærinn mun á næstunni ráðast í framkvæmdir í hverfinu sem verða til góðs fyrir þá sem þar nú búa sem og þá sem þangað munu flytja í framtíðinni.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ „Það er mikið fagnaðarefni að óvissu sé eytt um Helgafellshverfið og við hjá Mosfellsbæ munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að liðka til fyrir áframhaldandi uppbyggingu þar. “

Friðrik S. Halldórsson framkvæmdarstjóri Hamla, dótturfélags Landsbankans, segir að bankinn fagni samkomulaginu við Mosfellsbæ. Með því sé mikilsverðum áfanga náð. "Það er ánægjulegt fyrir Landsbankann að geta með þessum hætti tekið þátt í uppbyggingu í Mosfellsbæ og við teljum að með þessu samkomulagi sé málið komið á góðan rekspöl."

Til baka