Mosfellsbær tekur forystuna

24/05/2013

Mosfellsbær tekur forystunaÁ fundi í Krikaskóla á fimmtudagskvöld þar sem íbúum bæjarins og öðrum áhugasömum gafst kostur á að taka þátt í undirbúningi verkefnisins Heilsueflandi samfélag sagði Héðinn Svarfdal sérfræðingur hjá Embætti Landlæknis að önnur sveitarfélög horfðu til Mosfellsbæjar vegna þeirrar forystu sem sveitarfélagið hefur tekið í málefnum er varðar heilsueflingu. „Mosfellsbær á hrós skilið fyrir að hafa tekið forystu í að láta draum margra hjá Embætti landlæknis rætast um að innleiða Heilsueflandi samfélag, draum sem kviknaði hjá Lýðheilsustöð á sínum tíma. Áhugi á verkefninu er mikill í öðrum sveitarfélögum og nær út fyrir landsteinana. Ekki verður þó farið í samstarf við önnur sveitarfélög fyrr en Mosfellsbær er kominn á góðan rekspöl“ sagði Héðinn sem var í Noregi á dögunum og sagði frá verkefninu sem vakti mikla athygli.

Á fundinum í Krikaskóla, sem var opinn öllum, fór fram hugmyndavinna en fundurinn var sá síðast í fundaröð þar sem leitast hefur verið við að fá starfsmenn skóla og stofnana bæjarins, fyrirtækja og félagasamtaka og svo núna síðast íbúa til að taka þátt.

Heilsueflandi samfélag er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsuvinjar og Embættis landlæknis. Unnið er að mótun verkefnisins og í sumar mun koma út greiningarskýrsla sem gefur upplýsingar um hvar við stöndum núna.

Á heimasíðu landlæknis má finna upplýsingar um verkefni um heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla.
http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/

Það er því ljóst að nú þarf að bretta upp ermar og taka þátt allir sem einn. Þannig innleiðum við Heilsueflandi samfélag og stöndum undir nafni sem heilsubær. Á næstunni munu birtast frekari upplýsingar á heimasíðu Mosfellsbæjar um verkefnið.

Til baka