Ný slökkvistöð í Mosfellsbæ

10/06/2013

Ný slökkvistöð í Mosfellsbæ - fyrsta skóflustungan tekin á þriðjudagFyrsta skóflustungan að nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ verður tekin þriðjudaginn 11. júní kl. 15:30 (á horni Skarhólabrautar og Vesturlandsvegar).  Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tekur skóflustunguna ásamt fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem standa að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS). Slökkviliðs- og sjúkrabílar verða á staðnum.

Byggðaþróun undanfarinna ára hefur stækkað þjónustusvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) töluvert og gert það að verkum að útkallstíminn hefur ekki verið nægilega góður á tilteknum svæðum. Með byggingu nýrrar stöðvar í Mosfellsbæ styttist viðbragðstími slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem gerir sveitarfélögunum kleift að veita betri grunnþjónustu. Stöðin er því mjög vel staðsett m.t.t. útkalla.

Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður í kringum 2000 fermetrar að stærð með tvær hæðir og kjallara. Bæði er gert ráð fyrir slökkvi- og sjúkrabílum en byrjað verður á því að byggja þann hluta sem ætlaður er fyrir slökkvibílana á meðan ekki hefur verið skrifað undir samning við ríkið um sjúkraflutninga.

Sveitarfélögin standa sameiginlega að rekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga til að tryggja sem best öryggi og hagsmuni íbúanna. Sjúkraflutningar eru ekki lögbundið verkefni slökkviliða en Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu (SHS) hefur séð um sjúkraflutninga með samningi við ríkið frá árinu 2000. Sá samningur rann út árið 2011 og því setur stjórn SHS fyrirvara í samning við verktaka um byggingu sjúkrabílaaðstöðunnar þar til skrifað hefur verið undir nýjan samning.

Bygging slökkvistöðvarinnar er sameiginlegt verkefni þeirra sveitarfélaga sem standa að SHS og hefur verið í undirbúningi í nokkur ár. Sveitarfélögin eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær. Stjórn SHS er skipuð framkvæmdastjórum þessara sveitarfélaga og borgarstjórinn í Reykjavík er formaður stjórnar.

 


Mynd: Teikning af nýju slökkvistöðinni við Skarhólabraut.  Á 1. og 2. hæð verða búningsherbergi, skrifstofur, starfsmannaaðstaða, þvottherbergi og bílageymsla en í kjallara verða geymslur, tæknirými og aðstaða fyrir bílaþvott.

Til baka