Mosfellska hljómsveitin Kaleo á kortið

11/06/2013

Mosfellska hljómsveitin KaleoMosfellska hljómsveitin Kaleo hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu. Kaleo er skipuð þeim Jökli Júlíussyni,Davíð Antonssyni, Daníel Ægi Kristjánssyni og Rubin Pollock. Áður skipuðu þeir hljómsveitina Timburmenn sem Mosfellingar ættu að vera vel kunnugir. Nú eru þeir hinsvegar farnir að semja sína eigin tónlist undir nafninu Kaleo.

Vor í Vaglaskógi í nýjum búningi
Þrjú lög hafa nú litið dagsins ljós og hafa verið tekin í spilun á útvarpsstöðvum landsins. Í vikunni gáfu þeir út sína nýjustu afurð sem er ný útgáfa af hinni gömlu perlu Vor í Vaglaskógi sem Villi Vill söng upphaflega. Af hverju Vor í Vaglaskógi? „Lagið hefur verið í miklu uppáhaldi og Jökull kom með tillögu að nýjum búningi sem við féllum gjörsamlega fyrir,“ segir Davíð og svitnar undir handakrikunum. „Lagið er fallegt og textinn líka. Gott lag má spila á hvaða hátt sem er,“ bætir Jökull við.

Sex laga plata væntanleg
Um helgina taka þeir þátt í mikilli tónlistarveislu sem nefnist Keflavík Music Festival og troða þar upp á föstudagskvöldi ásamt rjóma íslenskra tónlistarmanna og erlendum stjörnum. „Markmiðið er að koma sem mest fram í sumar og erum við þétt bókaðir nú þegar. Þá erum við að leggja hönd á okkar fyrstu plötu, Glasshouse og er aldrei að vita nema útgáfutónleikarnir verði haldnir í gróðurhúsinu í Dalsgarði þar sem það væri nú við hæfi,“ segir Jökull og rífur sig úr að ofan. Platan mun innihalda sex lög og verður væntanleg síðla sumars.

 

Frétt tekin úr Mosfelling

Til baka