Ný leiktæki sett upp í Ævintýragarðinum

19/06/2013

Ævar skátaforingi við ný leiktæki í UllarnesbrekkumÆvintýragarður fyrir alla fjölskylduna er nú óðum að taka á sig mynd í Ullarnesbrekkum en mikil uppbygging stíga og gróðurs hefur átt sér stað ásamt að skátar setja upp leiktæki.
Frá því að bæjarstjórn samþykkti að gera garðinn, af tilefni 20 ára afmæli Mosfellsbæjar, hefur verið unnið við uppbyggingu á stígakerfi og gróðri á svæðinu.

Búið er að leggja malbikaðan og upplýstan aðalstíg sem liggur í gegnum allan garðinn, frá íþróttasvæðinu við Varmá að Leirvogstungu, með rósatorgi í miðjunni og göngubrúm við hvorn enda. Auk þess hefur verið lagður út frá aðalstígnum minni malarstígur, svonefndur Ætistígur, sem liggur meðfram hinum ýmsu ætiplöntum sem plantað hefur verið meðfram honum,  m.a. fjölmörgum tegundum berjarunna. Þar geta Mosfellingar lagt leið sína næsta haust til að tína ber og njóta umhverfisins.

 

Fjör í ÆvintýragarðiSkátar setja upp leiktæki

Síðastliðið sumar var sett upp fræðsluskilti um Ævintýragarðinn við innkomuna að sunnanverðu frá íþróttasvæðinu við Varmá. Fræðsluskiltið sýnir verðlaunatillögu Landmótunar um skipulag Ævintýragarðsins og hvernig uppbygging er fyrirhuguð í garðinum á næstu misserum.
Í vetur hefur síðan verið unnið að uppsetningu leiktækja á svæðinu. Skátafélagið Mosverjar hefur sett upp nokkur  skátaleiktæki í suðurenda garðsins, nálægt íþróttasvæðinu við Varmá. Þar er um að ræða ýmis klifur- og þrautatæki ásamt veglegum hlaupaketti sem hægt er að sveifla sér í. Einnig hefur verið sett upp klifurnet í miðjum garðinum, nálægt íþróttavellinum, sem vinsælt er meðal yngri kynslóðarinnar.
Fjör„Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til að nýta sér þessi nýju leiktæki og skoða þær framkvæmdir sem fram hafa farið í garðinum á síðustu misserum. Tilvalið fyrir göngufólk að kynna sér nýjar leiðir og sjá Mosfellsbæ frá öðru sjónarhorni. Garðurinn mun án efa nýtast jafn ungum sem öldnum í sumar,“ segir Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Sjá meira um uppbyggingu á Ævintýragarðinum hér

Frétt úr Mosfelling 7.tbl.2013

Til baka