Stórmót Gogga Galvaska verður í Mosfellsbæ helgina 28. – 30. júní

27/06/2013

Stórmót Gogga Galvaska verður í Mosfellsbæ Helgina 28 - 30 júníUndanfarin ár hefur Frjálsíþróttadeild Ungmennafélagsins Aftureldingar haldið sitt árlega frjálsíþróttamót fyrir börn og unglinga að 14 ára aldri hér í Mosfellsbæ. Mót þetta er betur þekkt undir heitinu Goggi Galvaski en þar hefur margt ungt og efnilegt frjálsíþróttafólk af öllu landinu stigið sín fyrstu spor í vegferð sem síðar hefur komið því í röð fremsta íþróttafólks þjóðarinnar í þessari íþróttagrein.

Mót þessi hafa jafnan staðið yfir síðustu helgi júnímánaðar frá föstudegi til sunnudags með þátttöku frjálsíþróttafélaga af öllu landinu. Keppt er í algengustu frjálsíþróttagreinum, þar sem ungt efnilegt frjálsíþróttafólk fær að spreyta sig, auk þess að boðið er upp á léttar keppnisgreinar fyrir yngstu þátttakendurna.

Stórmót Gogga Galvaska verður í Mosfellsbæ Helgina 28 - 30 júní
Stórmót Gogga Galvaska er nú haldið í 24. skipti og styttist því í stórafmælið. Í ár er ætlunin að halda veglegt mót helgina 28. – 30. júní n.k. en undanfarin ár hefur Goggi undið upp á sig með alls kyns uppákomum samhliða hinni hefðbundnu keppni.

Auk keppnismóts þessa ofangreinda helgi mun margt verða til skemmtunar fyrir þátttakendur, foreldra/forráðmenn og þjálfara á Gogga Galvaska, svo sem rathlaup, sundlaugarpartý, grillveisla og fleira. Það mun því verða líf og fjör á Varmárvelli síðustu helgina í júní 2013 þegar ungt og efnilegt frjálsíþróttafólk hvaðanæva af landinu mun takast á í skemmtilegri keppni. Svo er aldrei að vita nema að við fáum einhverja meistaraflokkskeppendur til þess að keppa í mótslok eins og í fyrra og reyna við ný met.

Það verður því líf og fjör að Varmá um helgina.

Til baka