Aukin framlög bæjarins til íþrótta og tómstunda. Tæp 60% hækkun frá 2012.

23/09/2013
Nýir samstarfssamningar vegna barna- og unglingastarfs. Tæp 60% hækkun frá 2012

Nýir samstarfssamningar Mosfellsbæjar við íþrótta- og tómstundafélög vegna barna og unglingastarfs hafa nú verið undirritaðir. Samningarnir gilda fram til ársins 2017 og hafa tekið þó nokkrum breytingum frá síðustu samningum. Framlög verða aukin verulega og er gert ráð fyrir að beinir styrkir sveitarfélagsins til íþrótta- og tómstundafélaga muni hækka um tæp 60% frá árinu 2012 á samningstímanum, úr 53 mkr. í 84 mkr. á ári, segir í fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ.
Þá eru ótalinn sá styrkur sem liggur í fríum afnotum íþrótta- og tómstundafélaga af íþróttamannvirkjum bæjarfélagsins sem nemur um 200 mkr. á ári.

Mikilvægi afreksstarfs
Sem fyrr er lögð áhersla á styrki til barna- og unglingastarfs til að létta undir þeirri starfsemi sem og barnafjölskyldum í bænum. Jafnframt eru styrkveitingar til afreksstarfs gerðar skýrari auk þess sem þær hækka verulega á tímabilinu.  þróttafélögin hafa lagt áherslu á að horft sé til mikilvægis afreksstarfs fyrir sveitarfélagið og þess gildis sem afreksfólk er sem fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni.

Stórbættur stuðningur sveitarfélagsins
Með þessum samningum hefur verið leitast við að samræma samninga, þannig að lík félög fái líkan styrk. Þá hefur verið lögð aukin áhersla á að félögin geri grein fyrir nýtingu styrkja með því að senda íþrótta- og tómstundanefnd upplýsingar um nýting fjármuna, og skiptingu þess milli áhersluþátta. Gert er ráð fyrir að árlega verði upplýsingar um tölfræði félaga og upplýsingar um styrkveitingar gerðar sýnilegar á vef bæjarins. Þannig munu bæjarbúar geta séð framlög bæjarins til félaga og deilda, og þannig fylgst með hvernig félögin verja styrkjum. „Það er afar ánægjulegt að það sé búið að ljúka við þessa samninga og  versu vel þeim er tekið af félögunum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Hér er verið að stíga stórt skref í að stórbæta
stuðning sveitarfélagsins við félög og deildir. Ég er viss um að þessir samningar komi til með að breyta miklu fyrir allt íþrótta- og tómstundastarf í bænum,“ segir Haraldur.

Félög sem samið er við meðal annarra:
Ungmennafélagið Afturelding, Hestamannafélagið Hörður, Golfklúbburinn Kjölur, Golfklúbbur Bakkakots, Íþróttafélagið Ösp, Skátafélagið Mosverjar og Björgunarsveitin Kyndill.

(Frétt: Mosfellingur.is)
Til baka