Hafist handa við Tunguveg

23/09/2013

Hér má sjá legu gatnagerðarNýr vegur frá Skeiðholti að Kvíslartungu sem er mikil samgöngubót fyrir íbúa Leirvogstungu.

Mosfellsbær hefur nú lokið við útboð á hönnun og framkvæmd Tunguvegar. Hnit verkfræðistofa, Kanon arkitektar og landslagsarkitektinn Birkir Einarsson munu sjá um hönnun. Verktaki er Ístak ehf. og hafa þeir nú þegar sett upp vinnuaðstöðu neðan Kvíslartungu.

Verkið felst í því að leggja nýjan Tunguveg frá Skeiðholti að Kvíslartungu alls um 1 km. Samhliða veginum verður hjóla- og göngustígur. Byggðar verða brýr yfir Varmá og Köldukvísl. Undir brúnum er gert ráð fyrir reiðstíg. Framkvæmdin felst einnig í að byggja undirgöng fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Skeiðholt. Á gatnamótum Skeiðholts, Skólabrautar og Tunguvegar verður hringtorg. Einnig er í undirbúningi breytingar á Skeiðholti að Þverholti sem snúa að hliðrun götunnar sem og hljóðvörnum.

Vegurinn verði tilbúinn næsta sumar
Ljóst er að vegurinn verður gríðarleg samgöngubót fyrir ört stækkandi Leirvogstunguhverfi. Ekki síst fyrir börn hverfisins sem sækja skóla og íþróttastarf á Varmársvæðið. Einnig verður til langþráð aðgengi fyrir íbúa bæjarins að íþróttasvæðinu við Tungubakka og Ævintýragarðinn sem er nú óðum að taka á sig mynd í Ullarnesbrekkum.

Gert er ráð fyrir að heildarverklok framkvæmdarinnar verði 1. júlí 2014 en brúarsmíði og jarðvinnu við Tunguveg verði lokið um áramót 2013/2014.

(Frétt: Mosfellingur.is)

Horft frá kvíslartungu

Til baka