Þróunar- og nýsköpunarviðurkenningar veittar

14/11/2013
Verðlaunahafar, Ingibjörg, Sigrún og EinarÞróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent í Listasalnum á þriðjudag síðastliðinn. Viðurkenningin er nú afhent í annað sinn. Þróunar- og ferðamálanefnd auglýsti eftir þróunar- og nýsköpunarhugmyndum, verkefnum, vöru eða þjónustu. Auglýst var eftir þremur flokkum hugmynda: A) hugmynd á frumstigi, B) hugmynd sem hefur fengið útfærslu eða mótast, C) hugmynd sem hefur fengið mótun og fyrir liggur viðskiptaáætlun. Alls bárust átta umsóknir. Fjórar í flokk B og fjórar í flokk C en engin í flokk A.

Listaverk úr jarðlögum
Einar Grétarsson hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið Neðanjarðar. Einar býr til listaverk sem byggjast á jarðlögum. Hér er um óvenjuleg listaverk að ræða sem eru fræðandi um náttúruna og sögu Íslands mörg þúsund ár aftur í tímann og hafa jafnframt mikið fagurfræðilegt gildi. Verðlaunin hlaut Einar í flokki B.

Verkin sýna hvernig jarðvegur hefur þróast og hvernig áfok frá hálendi Íslands hefur áhrif á jarðveginn. Á jarðvegslistaverkunum koma fram m.a. öskulög sem hafa myndast frá landnámi til dagsins í dag. Tekin hafa verið nokkur snið í landi Mosfellsbæjar, í Mosfellsdal, Álafosskvos og Flugumýri. Einnig hafa verið tekin snið við Heklu og Eyjafjallajökull og á fleiri stöðum. Stærð verkanna er breytileg og fer eftir hversu djúpur og áhugaverður jarðvegurinn er á hverjum stað.

App fyrir lesblinda
Þær Sigrún Jensdóttir og Ingibjörg B. Ingólfsdóttir hlutu verðlaun í flokki C. Þær hafa starfað starfað sem Davis ráðgjafar til margra ára og stofnuðu fyrirtækið Lesblindulist árið 2008.

Þær hafa þróað, hannað og gefið út stafaapp fyrir spjaldtölvur og snjallsíma, ætlað börnum með lesblindu eða tengda námsörðugleika. Forritið er gefið út á fjórum tungumálum. Appið er hugsað sem eftirfylgni með nýju íslensku stafaspili sem Sigrún og Ingibjörg settu á markað í vor. Lionsklúbbarnir í Mosfellsbæ hafa styrkt útgáfu spilsins og gerðu þeim kleift að gefa öllum leik- og grunnskólum bæjarins eintak af spilinu. Appinu er ætlað að kenna börnum stafina, bæði há- og lágstafina, draga rétt til stafs, skilja tákn í texta og æfa einbeitingu.

Sjá meira um viðurkenningar og myndir hér
Til baka