Öryggi barnanna okkar!

16/12/2013
Í leikskólanum Hlíð er mikil áhersla lögð á umferðarfræðslu. Þegar farið er í gönguferðir er mikilvægt að allir fari eftir umferðarreglunum. Lögreglan kemur árlega í heimsókn og fræðir elstu börnin um umferðarreglurnar. Þess vegna eru mörg barnanna vel að sér í því sem má og ekki má! Þau eru líka flest meðvituð um mikilvægi öryggisbúnaðar.

Því miður koma reglulega tilkynningar inn til leikskólans frá foreldrum að börn séu ekki spennt í bílum, að börn séu skilin eftir ein í bíl sem er hafður í gangi á bílastæði leikskólans. Jafnvel að börn hlaupi yfir bílastæði leikskólans þegar þau eru að koma eða fara í stað þess að ganga á gangstéttinni. Reglulega hefur því verið sett á heimasíðu leikskólans, send bréf heim til foreldra og rætt við börnin í leikskólanum um mikilvægi þess að hafa réttan öryggisbúnað í bílum og að farið sé eftir umferðarreglum.

Elstu börnin í leikskólanum létu ekki sitt eftir liggja í haust og tóku sig til og settu upp myndasýningu í tengibyggingu leikskólans þar sem kom skýrt í ljós að allir eigi að vera spenntir og bílar eiga ekki að vera í gangi á bílastæði leikskólans, enda finna þau útblásturslyktina leggja inn um hurðir og glugga. Þau bentu einnig á með réttu að ávallt skal loka hliðinu við leikskólann sem gengið er inn um. Því eru allir hvattir til að vera meðvitaðir um og huga að öryggi barnanna okkar.

Til baka