Höfðaberg stækkar fyrir næsta skólaár

18/05/2015
Á undanförnum misserum hefur verið unnið að uppbyggingu skóla við Æðarhöfða fyrir 5, 6 og 7 ára börn. Þessi skóli hefur fengið nafnið Höfðaberg. Í vetur hafa 5 og 6 ára börn verið í Höfðabergi og næsta vetur verða árgangarnir þrír. 

 

Könnun sýnir almenna ánægju
Að sögn skólastjórnenda í Höfðabergi hefur starfið gengið vel í vetur og almenn ánægja meðal starfsfólks og barnanna og jákvæður andi ríkir í húsinu. Telja þeir ávinning af samstarfi árganganna vera góðan sem báðir aldurshópar njóti góðs af.

Nýleg könnun meðal foreldra í Höfðabergi sýnir að þeir eru almennt ánægðir með skólann og telja að börnum sínum líði vel í skólanum. Þá telja þeir að húsnæðið, lóðin, ásamt skipulaginu í heild, sé gott og henti þessum aldurshóp vel.

Nokkrar ábendingar komu þó fram í könnuninni, sem er af hinu góða, flestar snéru að lóðinni og öðru skipulagi sem verður tekið til endurskoðunar og bætt úr eftir þörfum.

Skólinn stækkar

Fyrir næsta skólaár mun bætast við einn árgangur til viðbótar og verða þá í Höfðabergi þrír árgangar saman, samtals tæplega 200 börn í vel búnum skóla. Til þess að mæta þessu verður í sumar bætt við fjórum húsum á lóðina ásamt tengibyggingu sem tengist þeim byggingum sem fyrir er. Framkvæmdir í sumar felast á flutningi fjögurra húsa frá Lágafellsskóla sem og lóðaframkvæmdir og gerð nýrrar tengibyggingar. Þegar þessum framkvæmdum verður lokið verður skólinn fullbyggður.

(Frétt: Mosfellingur)

Til baka

Myndir með frétt