Menningarvor 2015 í Bókasafni Mosfellsbæjar

18/05/2015

Menningarvorið var nú skipulagt í sjötta sinn. Fjölhæfir og vinsælir listamenn eiga stóran þátt í vel heppnuðum viðburði og er þeim öllum þakkað af hjarta. Menningarvori 2015 í Bókasafni Mosfellsbæjar er nú lokið. 

Hita og þunga af skipulagi og framkvæmd ber starfshópur Menningarvors. Hann skipuðu Sigurður Ingvi Snorrason klarinettuleikari, Marta Hildur Richter forstöðumaður Bókasafnsins, Atli Guðmundsson skólastjóri Listaskóla Mosfellsbæjar og María Guðmundsdóttir fulltrúi Leikfélags Mosfellssveitar. Þeim er þakkað óeigingjarnt og metnaðarfullt starf.

Menningarvorið 2015 skartaði glæsilegum flytjendum tals og tóna og geta Mosfellingar verið stoltir af öllu þessu hæfileikaríka fólki. Samtals sóttu um 600 manns Menningarvorið að þessu sinni, eða að meðaltali 200 manns hvert kvöld. Gestir lýstu ánægju sinni með dagskrána öll kvöldin og ljóst er að Menningarvorið er komið til að vera.
 

"Ég er söngvari"
Fyrsta kvöldið nefndist "Ég er söngvari" – nærmynd af Guðrúnu Tómasdóttur söngkonu.Svo skemmtilega vildi til að Guðrún varð níræð daginn áður. Bjarki Bjarnason spjallaði við Guðrúnu um lífshlaupið og tónlistina. Inn í milli fléttuðust svo tónlistaratriði sem tengdust æviskeiði hennar. Einvalalið tónlistarmanna tók þátt í viðburðinum sem hófst með söng Vorboðanna undir stjórn Páls Helgasonar. Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) söng einsöng, fyrst við undirleik Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara og síðan við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara.
Kvartett ungra kvenna úr Listaskóla Mosfellsbæjar söng eitt lag, þær Ásgerður Elín
Magnúsdóttir, Birta Reynisdóttir, Guðrún Ýr Eyfjörð og Þóra Björg Ingimundardóttir.
Þá sungu þær saman Guðrún og Diddú við undirleik Önnu Guðnýjar.
Diddú, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Sigurður Ingvi Snorrason klarinettuleikari fluttu lag og endahnútinn ráku þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Gunnar Kvaran sellóleikari og Haukur Guðlaugsson píanóleikari.
Guðrún bauð svo gestum upp á kaffi og kökur í lok dagskrár.

Dalskróníka
Næsta dagskrá Menningarvors bar yfirskriftina Dalskróníka, Mosfell – frá Agli Skallagrímssyni til Stefáns Þorlákssonar.
Björn Þráinn Þórðarson framkvæmdastjóri fræðslusviðs Mosfellsbæjar sagði frá fornleifauppgreftri á Hrísbrú og tengdi við Egils sögu. Leikfélag Mosfellssveitar undir stjórn Birgis Sigurðssonar flutti frumsamda þætti úr Innansveitarkróníku og úr lífi Stefáns Þorlákssonar sem bjó í Reykjahlíð og síðar Reykjadal. Það var fyrir erfðafé Stefáns sem Mosfellskirkja hin nýrri var byggð.

Kirkjukór Lágafellssóknar söng undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur, Sigrún Harðardóttir lék á fiðlu og Diddú tók lagið. Auk þess bauð blásturssveitin „Brak og brestir“ gesti velkomna með sumarlegum tónum.

Áfram stelpur!
Þá opnaði Marta María Hálfdánardóttir, Helgasonar prests á Mosfelli, glerlistasýningu í fyrrum þjónustuveri bæjarins.

Þriðja og síðasta dagskráin var tileinkuð Kvenfélagi Lágafellssóknar og 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, og nefndist Áfram stelpur! Leikfélag Mosfellssveitar flutti þætti úr sögu Kvenfélagsins og tónlist fluttu Kjartan Valdemarsson og systurnar Dísella, Ingibjörg og Þórunn Lárusdætur.
Á eftir bauð Kvenfélagið upp á glæsilegt kaffihlaðborð í Listasal, þar sem fólk spjallaði og naut veitinga.

(Mosfellingur)

Til baka

Myndir með frétt