Glæsileg útskriftarhátíð nemenda í FMOS

05/06/2015
Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram föstudaginn 29. maí síðastliðinn við hátíðlega athöfn í nýju húsnæði skólans við Háholt 35 í Mosfellsbæ. Alls voru 18 nemendur brautskráðir en sex námsbrautir eru við skólann og er fjöldi nemenda um þrjúhundruð og sextíu. Útskriftarnemendum voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.

Brautskráðir voru tólf stúdentar af félags- og hugvísindabraut, fimm stúdentar af náttúruvísindabraut og einn stúdent af opinni stúdentsbraut. 

Dúx Framhaldsskólans FMOS er Súsanna Katarína Sand Guðmundsdóttir. Veitti Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi bæjarstjórnar, henni viðurkenningu frá Mosfellsbæ fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi. Lionsklúbbur Mosfellsbæjar veitti Súsönnu Katarínu verðlaun fyrir góðan árangur í raungreinum. Súsanna Katarína fékk einnig viðurkenningar fyrir góðan árangur í líffræði, ensku og spænsku. 

Í samtali við Súsönnu sagði hún : „Ég er lesblind þannig að ég þurfti að leggja talsvert á mig og þurfti að lesa textana oftar en einu sinni. Mín lesblinda lýsir sér þannig að stundum missi ég úr nokkur orð í texta. Mér fannst æðislegt að vera í svona litlum skóla. Þetta var bara ótrúlega gaman og maður þekk-ir kennarana rosalega vel og það eru allir mjög nánir og þetta er eins og stór fjölskylda. Í haust er stefnan sett á frekara nám erlendis í dýralækningum með sérsvið á hestalækningar“. Sagði hún jafnframt. 

Birgir Hrafn Birgisson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í heimspeki og kvikmyndafræði. Ragnhildur Ioana Guðmundsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í Éss – Ég, skólinn og samfélagið og Signý Haraldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í Listgreinum.

Fyrir störf í þágu nemendafélagsins fengu Erlingur Örn Árnason, Ragnhildur Ioana Guðmundsdóttir og Tinna Sif Guðmundsdóttir viðurkenningu. 

SKÓLINN
Þess má geta að Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var stofnaður haustið 2009. Skólinn var starfræktur fyrstu tvö árin í Brúarlandi, elsta skólahúsi Mosfellsbæjar. Ný skólabygging að Háholti 35 var tekin í notkun í janúar 2014. Byggingin er um 4000 m2 og þykir mjög vel heppnuð, bæði hvað varðar aðlaðandi útlit og hversu vel kennslurýmin styðja við kennsluhætti skólans.
Í skólanum ríkir heimilislegt og jákvætt andrúmsloft. Skólabragur FMOS einkennist af góðum samskiptum nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa greiðan aðgang að kennurum, m.a. í verkefnatímum sem eru opnar vinnustofur á skólatíma. Til að vinna að þessu er í skólanum öflug náms- og starfsráðgjöf og virkt stoðkerfi fyrir nemendur. 

VERKEFNI NEMENDA
Nemendur vinna alls kyns verkefni yfir önnina. Hér má sjá dæmi um þrjú slík verkefni: myndband um áráttu og þráhyggju og viðeigandi meðferð, kynningarmyndband fyrir hestabraut skólans og heimasíðu með upplýsingum fyrir nýnema.

Verkefnin eiga það öll sameiginlegt að hafa vakið nokkra athygli. Það fyrsta hefur nú verið birt á heimasíðu og fésbókarsíðu Geðhjálpar og þau seinni tvö nýtast til kynningar á skólanum fyrir nýnema.

Kíkið endilega á þessi frábæru verkefni með því að smella á þau hér að ofan

Til baka

Myndir með frétt