Starfsemi Ásgarðs í Kvosinni efld

10/06/2015

Mosfellsbær og Ásgarður handverkstæði hafa skrifað undir samning um að hinn síðarnefndi taki á leigu Álafossveg 10 gegn því að gerðar verði endurbætur á húsnæðinu.

Álafossvegur 10 er í daglegu tali kallað Rauða húsið og er í eigu bæjarins. Forsvarsmenn Ásgarðs hafa lengi leitað leiða til að efla starfsemina og veita fleiri starfsmönnum vinnu. Ásgarður er verndaður vinnustaður og þar starfa þroskaskertir einstaklingar við framleiðslu á leikföngum og húsbúnaði.

Fjölmargir eru á biðlista hjá Ásgarði, en sjaldgæft er að pláss losni.

Með samningnum munu bætast við átta hálfsdags stöðugildi í Ásgarði og er hugmyndin að nýta m.a. vinnuafl þeirra starfsmanna sem til þess eru færir við að gera húsið upp. Rauða húsið er orðið lélegt og vart boðlegt í núverandi mynd en undanfarin ár hefur Afturelding haft afnot að því fyrir íþróttafólk.

Ásgarður hefur átt gott samstarf við ýmsar stofnanir Mosfellsbæjar. Meðal annars hefur samstarf við bæði leik- og grunnskólana aukist undanfarin ár.

Á mynd má sjá  Gunnar Jónsson, nýjasti starfsmaðurinn í Ásgarði, taka við lyklunum að húsinu úr höndum Haraldar bæjarstjóra.

(Mosfellingur)

Til baka

Myndir með frétt