Mosfellsbær áfrýjar til hæstaréttar

11/02/2016

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt í máli íslenska ríkisins gegn Mosfellsbæ þar sem deilt var um álagningu gatnagerðargjalds vegna byggingar framhaldsskólans í Mosfellsbæ.

Ríkið og Mosfellsbær stóðu saman að byggingu framhaldsskólans. Samið var á sínum tíma um að ríkið skyldi greiða 60% kostnaðarins við byggingu skólans en bærinn 40%.

Mosfellsbær taldi sig vera í rétti til að innheimta gatnagerðargjald á grundvelli laga nr. 153/2006 þar sem skylt er að innheimta gatnagerðargjöld af fasteignum í þéttbýli án undantekninga er varða byggingu framhaldsskóla.

Dómurinn kemst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að túlka beri lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla þannig að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án endurgjalds og þar með talið án gatnagerðargjalda.

Mosfellsbær lítur á málið sem prófmál sem hafi áhrif á byggingu framhaldsskóla í öllum sveitarfélögum. Gatnagerðargjald er skattur og samkvæmt meginreglu laga skal túlka allar undantekningar frá greiðslu skatta mjög þröngt. Þess má geta að gatnagerðargjöld eiga að standa undir gatnagerð almennt í sveitarfélögum en ekki bara gatnagerð að þeim fasteignum sem um ræðir.

Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti í morgun að áfrýja málinu. Bæjarráð telur mikilvægt að úr því sé skorið fyrir æðra dómsvaldi hvort sveitarfélögum beri að innheimta gatnagerðargjöld vegna byggingar framhaldsskóla.

Til baka