Sumarið er komið í Mosfellsbæ.

01/06/2016

Lystigarðurinn við Hlégarð er komin í sumarskrúðann. Garðyrkjudeild Þjónustustöðvar hefur unnið að fegrun umhverfisins við Hlégarð undanfarið og eru sumarblómin komin í beðin í öllum sínum skrúða svo hægt er að njóta þessa fallega útivistasvæðis í hjarta Mosfellsbæjar. 

Göngu- og hjólaleiðir
Sláttur hófst í síðustu viku í sól og ágætis veðri. Vorhreinsunarátak hefur staðið yfir í Mosfellsbænum fyrripart maí mánaðar með aðstoð íbúa og félagasamtaka. Götur og göngustígar hafa verið sópaðir og má segja að bærinn sé kominn í sumarbúning. Mosfellsbær býður upp á fjölmargar göngu- og hjólaleiðir og því tilvalið að fara út og hreyfa sig á fallegum dögum.

Fjölskyldu og leikgarðar
Mosfellbær státar af nokkrum fjölskyldu og leikgörðum sem tilvalið er að njóta með fjölskyldu og vinum. Má þar nefna Lystigarðinn við Stekkjarflöt þar sem spennandi leiktæki eru fyrir yngri kynslóðina og hægt að taka með á grillið, Ævintýragarðinn sem staðsettur er í Ullarnesbrekkum sem er fyrir alla fjölskylduna hlaðinn spennandi leiktækjum. Mikil uppbygging stíga og gróðurs hefur átt sér stað og liggur malbikaður og upplýstur aðalstígur í gegnum allan garðinn, frá íþróttasvæðinu við Varmá að Leirvogstungu, með rósatorgi í miðjunni og göngubrúm við hvorn enda. Út frá aðalstígnum liggur minni malarstígur, svonefndur ætistígur, sem liggur meðfram hinum ýmsu ætiplöntum sem plantað hefur verið meðfram honum, m.a. fjölmörgum tegundum berjarunna. Þar geta Mosfellingar lagt leið sína að hausti til að tína ber og njóta umhverfisins.

Sjá meira um Fjölskyldu og leikgarða og staðsetningu þeirra

Til baka