Mosfellsbær fjarlægir dekkjakurl af sparkvöllum

22/08/2016
Samkvæmt ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar verður skipt um gúmmíkurl á öllum gervigras- og sparkvöllum í bænum. Búið er að setja upp og samþykkja þriggja ára áætlun um framkvæmdina sem mun kosta um 124 milljónir og taka þrjú ár. Byrjað verður á elstu sparkvöllunum við grunnskóla bæjarins og endað á gervigrasvöllunum við Varmá.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar tilmæla frá Umhverfisstofnun þar sem segir að æskilegt sé að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þó að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls valdi heilsufarslegum skaða beinir Umhverfisstofnun því til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum, að við endurnýjun vallanna eða við byggingu nýrra valla verði notaðar aðrar lausnir.

Á gervigrasvellinum við Varmá er svokallað grænhúðað kurl en húðunin á að koma í veg fyrir að heilsuspillandi efni losni úr kurlinu við notkun. Tillaga að endurnýjun gúmmíkurls á þeim velli er gerð með fyrirvara um framtíðaráform um yfirbyggingu vallarins.

Til baka