ÞJÓNUSTA AUKIN OG SKATTAR LÆKKAÐIR

10/11/2016
Ungbarnaþjónusta og Ungmennahús

Fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2020 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur næsta árs verði 201 m.kr. Áætlað er að framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum nemi 746 millj. kr. og að íbúum fjölgi um 3,4% milli ára. Þá er gert ráð fyrir að tekjur nemi 9.542 millj. kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 8.331 millj. kr. og fjármagnsliðir 653 m.kr.

Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og að skuldaviðmið skv. sveitastjórnarlögum verði 106% í árslok 2017 sem er töluvert fyrir neðan hið lögbundna 150% mark skv. sveitarstjórnarlögum.

Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Helgafellsskóla en en gert er ráð fyrir að um 500 mkr. fari í það verkefni á árinu 2017 og að fyrsti áfangi skólans verði tekin í notkun haustið 2018.
 

Aukin þjónusta við barnafjölskyldur
Stefnt er að því að veita verulegum fjármunum til að auka þjónustu við eins til tveggja ára börn m.a með því að stofnaðar verði sérstakar ungbarnadeildir við leikskóla bæjarins. Auk þessa er gert ráð fyrir því að tónlistarkennsla Listaskólans inni í grunnskólunum verði efld til að fleiri nemendur eigi þess kost að stunda tónlistarnám. Lagt er til að grunnur frístundaávísunarinnar hækki um 5 þúsund krónur og að stofnun Ungmennahúss verði veitt brautargengi í samstarfi við Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Fasteignaskattar lækka
Lagt er til að álagningarhlutföll fasteignagjalda lækki til að koma til móts við þá auknu eignarmyndun sem átt hefur sér stað hjá íbúum með hækkun fasteignamats. Almennt er ekki gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum, t.a.m verða leikskólagjöld óbreytt annað árið í röð.
Áætlunin verðu nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða fer fram miðvikudaginn 7. desember næstkomandi. 

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:

„Hugmyndir um aukna þjónustu við yngstu börnin hefur verið okkur ofarlega í huga í nokkurn tíma og ánægjulegt að geta sett fram áætlun um að setja þær hugmyndir í framkvæmd. Þar verður um nokkrar leiðir að ræða og lögð áhersla á valfrelsi.Þessi fjárhagsáætlun ber þess merki að hagur sveitarfélaga er að einhverju leiti að vænkast eftir mörg erfið ár að undanförnu. Ánægjulegt er að gert er ráð fyrir mörgum nýjum verkefnum í þessari áætlun sem ekki hefur verið svigrúm fyrir að undanförnu. Ég legg þó áherslu á að helsta verkefni fjárhagsáætlunar 2017 eru að gera enn betur í grunn- og velferðarþjónustu bæjarins. Því til stuðnings má nefna að rúmlega 80% af heildarútgjöldum Mosfellsbæjar er varið í rekstur skólastofnana, íþrótta- og tómstundamál og félagsþjónustu.“

Sjá fjárhagsáætlun 2017 – 2020, til fyrri umræðu í bæjarstjórn 9. nóvember

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012

Aldís Stefánsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar
s.691-1254, aldis@mos.is


Til baka