Mosfellsbær býður upp á samtal um kvíða

13/12/2016
Öllum nemendum á unglingastigi í grunnskólum Mosfellsbæjar var á mánudag boðið upp á fræðsludagskrá og samtal um kvíða og tilfinningar sem tengjast kvíða. Vísbendingar eru um að kvíðaeinkenni séu að aukast hjá ungmennum almennt. Það kemur fram í niðurstöðum rannsóknar um hagi og líðan ungs fólks sem fyrirtækið Rannsóknir og greining hefur framkvæmt síðustu ár.

Fræðslu- og frístundasvið Mosfellsbæjar vinnur nú að aðgerðaráætlun sem miðar að forvörnum og fræðslu sem er sniðin að líðan ungs fólks. Fræðslufundurinn í morgun var liður í aðgerðaráætluninni.

Fræðsluskrifstofan, Félagsmiðstöðin Ból ásamt grunnskólunum stóðu saman að dagskránni sem fór fram í Íþróttamiðstöðinni að Varmá í morgun. Anna Sigurðardóttir sálfræðingur hélt fyrirlestur um kvíða og síðan var farið í hópavinnu. Tekist var meðal annars á við spurningar um hvað telst vera eðlilegt varðandi tilfinningar sem tengjast kvíða? Hvaða tæki og tól höfum við til að takast á við kvíða í daglegu lífi? Í lokin komu bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir og skemmtu viðstöddum.

Nemendur á unglingastigi í grunnskólum Mosfellsbæjar eru samtals um 470. Það er nýjung að þeim sé öllum stefnt á sama stað á sama tíma til að ræða svo mikilvægt málefni sín á milli. Það gefur til kynna að líðan þeirra er tekin alvarlega og markmið með fundinum var að kenna þeim að umgangast tilfinningar sínar sem meðal annars tengjast kvíða og annarri andlegri vanlíðan.


Nánari upplýsingar gefa:

Guðríður Þóra Gísladóttir sálfræðingur – 663 6746
Edda Davíðsdóttir tómstundafulltrúi Mosfellsbæjar – 615 1532
Til baka