Bæjarráð Mosfellsbæjar ályktar um breytingar á vaktafyrirkomulagi heilsugæslustöðvarinnar

15/12/2016
Talsvert hefur verið rætt og skrifað í Mosfellsbæ á síðustu vikum um breytingar á vaktafyrirkomulagi heilsugæslustöðvarinnar sem á að taka gildi frá og með 1. febrúar næstkomandi. Breytingarnar miða að því að ekki verður lengur kvöld- og helgarvakt á heilsugæslustöðinni heldur verður íbúum svæðisins beint á Læknavaktina á Smáratorgi. Heilsugæsla Mosfellsumdæmis þjónustar íbúa Mosfellsbæjar, Kjalarnes og Kjós. Íbúar á þessu svæði eru yfir 10 þúsund og fer hratt fjölgandi. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur fundað með stjórnendum Heilsugæslunnar og í morgun var eftirfarandi bókun samþykkt af öllum flokkum:

Bæjarráð Mosfellsbæjar harmar þjónustuskerðingu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við íbúa Mosfellsumdæmis vegna breytinga á kvöld og næturvöktum. Ástæða er til að hafa áhyggjur af mönnun Heilsugæslustöðvarinnar í kjölfar yfirlýstrar óánægju starfandi lækna með breytinguna og áhrifum hennar á dreifðar byggðir svæðisins. Bæjarráð veltir því upp hvort þjóðhagslega hagkvæmt sé að eina næturþjónustan sem bjóðist íbúum höfuðborgarsvæðisins sé bráðadeild Landspítala.

Bæjarráð leggur áherslu á að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður íbúa þegar þeir leita heilbrigðisþjónustu. Heilsugæsluna þarf að efla og tryggja að nægu fjármagni sé varið til rekstrarins. Stytta þarf biðtíma sjúklinga, bæta sálfræðiþjónustu og heimahjúkrun. Bæjarráð leggur mikla áherslu á að síðdegisvaktin verði lengd í kjölfar þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið.
Til baka