Breytingar á húsaleigubótakerfinu – tóku gildi um áramót

02/01/2017

Um áramót tóku gildi ný lög um húsnæðisbætur sem voru samþykkt á Alþingi í vor. Framvegis mun Vinnumálastofnun fyrir hönd ríkisins taka að sér að greiða út húsnæðisbætur sem koma í stað almennra húsaleigubóta. Sveitarfélög munu sjá um að taka á móti umsóknum og afgreiðslu á sérstökum húsnæðisstuðningi sem voru áður sérstakar húsaleigubætur.

Nánari upplýsingar um almennan húsnæðisstuðning má finna á husbot.is.

Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning hafa verið samþykktar í bæjarráði Mosfellsbæjar og fara nú til staðfestingar í bæjarstjórn og svo til auglýsingar í stjórnartíðindum til að öðlast fullt gildi. 

Samkvæmt samþykktum reglum þurfa umsækjendur að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

  1. Umsækjandi skal búa í samþykktu íbúðarhúsnæði á almennum markaði.
  2. Umsækjandi skal hafa fengið samþykkta umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. 
  3. Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Mosfellsbæ þegar sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning.
  4. Að samningur liggi fyrir um afnot af íbúðarhúsnæði sem er staðsett í Mosfellsbæ nema um sé að ræða húsnæði fyrir 15-17 ára börn, sbr. 8. gr. reglna þessara. 
  5. Samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, séu undir efri mörkum skv. viðmiðunum 5. gr. 
  6. Samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, á síðastliðnu ári séu ekki hærri en 5.126.000 kr. 

Hægt er að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning á Íbúagátt Mosfellsbæjar. Nánari upplýsingar um sérstakan húsnæðisstuðning er hægt að fá hjá Þjónustuveri og Fjölskyldusviði Mosfellsbæjar í síma 525-6700.

Til baka